Erlent

"Herra Trump er heimskur"

Birta Björnsdóttir skrifar
Þó mótframbjóðandi Trumps, Marco Rubio hafi helst út lestinni fyrir nokkru, reyndist hann sannspár um að ummæli þeirra sem vilja gegna embætti forseta Bandaríkjanna geta haft afleiðingar út fyrir landsteinana.

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París í fyrra sagði Donald Trump þetta að verði hann forseti vilji hann banna múslimum að koma til Bandaríkjanna.

Nú þegar allt stefnir í að Trump verði forsetaefni Repúblikana eru þessi ummæli hans gjarnan rifjuð upp. Trump hefur reyndar aðeins dregið í land með þessar og fleiri umdeildar yfirlýsingar sínar undanfarið. Hluti af þeim áformum var fundur með Paul Ryan, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, fyrr í dag.

Trump sagði í viðtali á dögunum bannið eingöngu hafa verið tillögu og að það yrði alltaf tímabundið. Þá segist hann jafnframt ætla að gera undantekningu í tilfelli Sadiq Kahn, nýkjörins borgarstjóra í London, sem er einmitt múslimi.

Sadiq Khan, borgarstjóri í London.
Kahn þótti ekki mikið til þess koma að vera undanskilinn þessum áformum Trump.

„Skilaboð mín til Donald Trump eru þau að ummæli sem þessi eru besta leiðin til að tapa kosningum. Ekki gera mig að undantekningunni. Þetta snýst ekki bara um mig. Það er vel mögulegt að vera múslimi í vestrænu ríki, það sönnuðu Lundúnabúar á dögunum," sagði Sadiq Khan.

Trump virðist heldur ekki vera í miklu uppáhaldi hjá kollega Kahn, Anne Hidalgo, borgarstjóra í París.

„Herra Trump er heimskur, hann er mjög heimskur," sagði Anne Hidalgo aðspurð um ummæli Donald Trump um múslima.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×