„Það er mjög góð tilfinning að byrja svona undankeppni vel og þetta var bara mjög góður leikur hjá okkur að mestu leyti,“ segir Hlynur Bæringsson eftir sigurinn í kvöld.
Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í körfubolta unnu í kvöld frábæran sextán stiga sigur á liði Sviss, 88-72, í fyrsta leik liðanna í undankeppni EM 2017.
„Varnarleikur liðsins í fyrri hálfleik var frábær og þeir fengu mjög fáar auðveldar körfur. Það er síðan þægilegt að byrja svona eins og í kvöld. Við hittum úr öllu á tímabili og það er gott að fá smá sjálfstraust.“
Hann segir að leikmenn liðsins hafi því komist mjög snemma í gang í kvöld.
„Þetta er fínasta lið sem við erum að mæta hér í kvöld en hér á heimavelli teljum við okkur alltaf eiga séns í alla. En þetta er bara rétt að byrja, en við erum samt sáttur eftir þennan leik.“
Hlynur mun leika með liðið Stjörnunnar í vetur og kemur hann heim úr atvinnumennskunni.
„Það var smá skrítin tímasetning á þessu hjá mér, að vera standa í þessu á leikdegi en ég hlakka bara mikið til. Þetta er stór ákvörðun á allan hátt. Ekki bara fyrir mig, heldur alla fjölskylduna líka og mikið af tilfinningum í gangi,“ segir Hlynur en hann er spenntur fyrir liðið Stjörnunnar og segist vera fara á góðan stað. Bæði Hlynur og Jón Arnór Stefánsson eru að koma heim úr atvinnumennskunni. Hlynur í Stjörnuna og Jón heim í KR.
„Vonandi getum við gert eitthvað gott fyrir þessa deild. Það hefur verið mikill uppgangur í deildinni og öll umfjöllun og umgjörð hefur verið frábær. Það er bara stemmning í kringum körfuna og vonandi getum við bætt ofan á það.“
