Körfubolti

Ísland í neðsta styrkleikaflokki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísland verður í neðsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir EM 2017 í körfubolta 22. nóvember næstkomandi.

Ísland er í 21. sæti í styrkleikaröðun FIBA á liðunum 24 sem keppa á EM á næsta ári.

Styrkleikaflokkarnir eru sex en eitt lið úr hverjum flokki er í riðlunum fjórum sem verða leiknir í jafn mörgum löndum: Finnlandi, Ísrael, Rúmeníu og Tyrklandi.

Líkt og 2015 fá gestgjafarnir fjórir að velja sér eina þjóð, sem er ekki í sama styrkleikaflokki þeir, og bjóða henni að vera með sér í riðli og koma að skipulagningu leikjanna.

Ljóst er að Ísland spilar ekki í Rúmeníu þar sem þjóðirnar eru í sama styrkleikaflokki. Ísrael, Tyrkland og Finnland koma því til greina.

Eins og fjallað var um á Vísi í fyrradag vilja forystumenn KKÍ helst spila í Finnlandi og þeir halda til Helsinki á mánudaginn til viðræðna við kollega sína hjá finnska körfuknattleikssambandinu.

Nálægðin hefur sitt að segja sem og sú staðreynd að 2. september, þremur dögum eftir að EM hefst, mætast Finnland og Ísland í Helsinski í undankeppni HM 2018 í fótbolta.

„Við viljum fá körfubolta- og fótboltafólk saman til Helsinki í eitt gott partí á næsta ári. Við verðum að sameinast í þessu. Ég tel að það verði hægt, og það er okkar markmið, að fá 2.500-3.000 Íslendinga til Helsinki. Þannig seljum við þetta. Við verðum að geta lofað þessum fjölda,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við Vísi á þriðjudaginn.

Ísland var einnig með á EM í fyrra en þá lék íslenska liðið í Berlín. Strákarnir lentu í sannkölluðum dauðariðli, með Þýskalandi, Spáni, Serbíu, Tyrklandi og Ítalíu, og töpuðu öllum leikjunum.

Styrkleikaflokkana má sjá á myndinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×