Fótbolti

Sara Björk skoraði á móti Chelsea í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki sínu í kvöld með liðsfélögunum.
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki sínu í kvöld með liðsfélögunum. Vísir/Getty
Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar hennar í þýska liðinu Wolfsburg komust í dag örugglega áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildar kvenna í fótbolta.

Sara Björk skoraði mark Wolfsburg í 1-1 jafntefli í seinni leik liðanna sem fram fór á heimavelli Wolfsburg. Þetta var fyrsta mark hennar fyrir þýska liðið í keppnisleik.

Wolfsburg-liðið hafði unnið fyrri leikinn 3-0 í Englandi og komst því áfram 4-1 samanlagt.

Eniola Aluko kom Chelsea í 1-0 á 43. mínútu í leiknum í dag og þannig var staðan þar til að Sara Björk jafnaði metin á 80. mínútu. Sara Björk skoraði eftir stoðsendingu frá Anna Blässe.

Sara Björk Gunnarsdóttir er á sínu fyrsta tímabili með Wolfsburg en fyrstu fimm ár atvinnumannaferilsins hafði hún spilað með sænska liðinu Rosengård.

Wolfsburg fór alla leið í úrslitaleikinn í fyrra þar sem liðið var að sætta sig við tap í vítakeppni á móti Lyon frá Frakklandi. VfL Wolfsburg vann Meistaradeildina 2013 og 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×