Körfubolti

Stíflan brast á Hlíðarenda með sannkölluðu stigaflóði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hin sautján ára gamla Dagbjört Dögg Karlsdóttir spilaði mjög vel á móti Grindavík.
Hin sautján ára gamla Dagbjört Dögg Karlsdóttir spilaði mjög vel á móti Grindavík. Vísir/Stefán
Valskonur unnu langþráðan fyrsta sigur sinn í Domino´s deild kvenna í gær en um leið gerðu þær það sem engu öðru kvennaliði hefur tekist í vetur.

Valur bætti nefnilega stigamet tímabilsins um heil fjórtán stig og varð fyrsta kvennalið vetrarins sem nær að skora hundrað stig í einum leik.

Valskonur komust úr botnsætinu með þessum 103-63 sigri á Grindavíkurliðinu og sendu Grindavíkurkonur um leið niður í botnsæti deildarinnar.

Grindavík vann kanalaust Haukalið í fyrstu umferð en hefur síðan tapað fjórum leikjum í röð og það með 22 stigum að meðaltali í leik.

Ekkert lið í deildinni hafði skorað meira en 89 stig í fyrstu nítján leikjum tímabilsins en Keflavíkurkonur skoruðu 89 stig í sigri á Grindavík á dögunum.

Eftir fjóra tapleiki í röð var eins og stíflan hafi brostið á Hlíðarenda á sunnudaginn. Valsliðið hafði bara skorað 63,8 stig að meðaltali í fyrstu fjórum leikjum sínum en hækkaði meðalskor sitt upp í 71,6 með þessum eina leik.

Valsliðið var reyndar bara með fimmtán stiga eftir fyrsta leikhlutann en skoraði samtals 88 stig í síðustu þremur leikhlutunum.

Hin bandaríska Mia Loyd skoraði sín 30 stig eins og hún hefur verið að gera allt tímabilið en að þessu sinni voru allar íslensku stelpurnar í liðinu að skora líka.

Hallveig Jónsdóttir skoraði 22 stig, Dagbjört Dögg Karlsdóttir var með 15 stig, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir bætti við 11 stigum og þær Dagbjört Samúelsdóttir og Bergþóra Holton Tómasdóttir voru báðar með níu stig. Allar nema Elín Sóley höfðu ekki skorað meira í einum leik á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×