Erlent

Obama segir að sagan muni dæma þau gríðarlegu áhrif sem Castro hafði á heiminn

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump og Barack Obama.
Donald Trump og Barack Obama. Vísir/Getty
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að sagan muni dæma þau „gríðarlegu áhrif“ sem Fídel Castro hafði á heiminn. Þessi fyrrverandi forseti Kúbu lést í gær, níræður að aldri.

Sögulegar sættir tókust milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Kúbu í árslok 2014 þar sem samið var um unnið skyldi að bættum samskiptum ríkjanna. Viðskiptabann og diplómatískur fjandskapur hafði þá ríkt milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Kúbu í um hálfa öld.

Í frétt NBC er haft eftir Obama að hann viti að fréttirnar um dauða Castro skapi miklar tilfinningar hjá Kúbumönnum þar sem þeir munu rifja upp með hvaða hætti Castro hafði áhrif á líf einstaklinga, fjölskyldna og kúbversku þjóðarinnar almennt. „Sagan mun skrá og dæma þau gríðarlegu áhrif sem þessi einstaklingur hafði á fólkið og heiminn í kringum sig.“

Obama vottaði Kúbumönnum samúð sína og sagði að þeir myndu á næstu dögum líta til fortíðar en einnig til framtíðar. Ítrekaði hann að Bandaríkin væru bæði vinur og bandamaður Kúbu.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur enn tjáð sig sérstaklega um dauða Castro fyrir utan stuttort tíst, þar sem hann segir einfaldlega að Castro sé látinn.

Uppfært 16:33:

Donald Trump hefur nú sagt Fídel Castro hafa verið grimmdarlegan einræðisherra. Segist hann vona að dauði Castro muni færa Kúbumenn aukið frelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×