Erlent

Nigel Farage sagður íhuga flutninga til Bandaríkjanna

Birgir Olgeirsson skrifar
Nigel Farage.
Nigel Farage. Vísir/EPA
Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins, er sagður íhuga flutninga til Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í frétt breska dagblaðsins The Times en þar er Farage og eiginkona hans Kirsten sögð lengi hafa haft áhuga á því að flytja til Bandaríkjanna en ekki látið slag standa því þau vildu ekki yfirgefa fjölskyldu sína á Bretlandseyjum.

Í frétt Times kemur hins vegar fram að Farage hafi fengið mikla athygli eftir að Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa Evrópusambandið og sú athygli hafi ekki verið jákvæð yfir það heila. Hann telur sig því geta fengið meiri frið í Bandaríkjunum.

Farage talaði harðast fyrir því að Bretar myndu yfirgefa Evrópusambandið en þessar fréttir berast eftir að hinn nýkjörni forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, lýsti því yfir að Farage yrði frábær sendiherra Breta í Bandaríkjunum.

Talsmaður breska forsætisráðuneytisins sagði í kjölfar þeirrar yfirlýsingar Trumps að Bretar hafi nú þegar frábæran sendiherra í Bandaríkjunum.

Farage fór og hitti Trump í New York skömmu eftir að Trump hafði sigrað í forsetakosningunum. Voru þeir myndaðir skælbrosandi saman í Trump-turninum við það tilefni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×