Körfubolti

Leikstjórnandi Njarðvíkinga dúxinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björk Gunnarsdóttir lét ekki þetta högg stoppa sig.
Björk Gunnarsdóttir lét ekki þetta högg stoppa sig. Vísir/Eyþór
Björk Gunnarsdóttir er lykilmaður hjá nýliðum Njarðvíkur sem hafa komið mörgum á óvart með flottri frammistöðu í Domino´s deild kvenna í körfubolta.

Það vissu samt örugglega færri að auk þess að vera leikstjórnandi Njarðvíkurliðsins og ein af stoðsendingahæstu leikmönnum deildarinnar þá er Björk afburðarnámsmaður.

Víkurfréttir segja frá afrekum bakvarðarins í námi sínu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Björk lauk stúdentsnáminu á aðeins tveimur og hálfu ári og varð dúx FS með meðaleinkunn upp á 9,5.

Björk Gunnarsdóttir varð átján ára gömul í haust en hún lék líka stórt hlutverk með átján ára landsliðinu síðasta sumar og verður með 20 ára landsliðinu næsta sumar.

Björk er með 7,2 stig, 4,1 stoðsendingu og 4,1 frákast að meðaltali í þrettán leikjum með Njarðvík í Domino´s deild kvenna í körfubolta í vetur. Það eru bara tveir leikmenn í deildinni sem hafa gefið fleiri stoðsendingar í vetur en hún er í 5. sæti yfir flestar stoðsendingar að meðaltali í leik.

Björk hefur mjög gaman af stærðfræði og stefnir á að fara í verkfræði í háskóla. „Ég gæti hugsað mér að fara í heilbrigðisverkfræði. Ég ætlaði mér upphaflega að verða læknir og svo sló ég það út af borðinu vegna þess að það er ekki mjög mikil stærðfræði í því,“ segir Björk í viðtalinu í Víkurfréttum.

Aðspurð hvort hún hafi einhvern tíma afgangs fyrir félagslífið segir hún að hún mætti kannski vera örlítið duglegri þar en eigi þó góðan vinahóp sem henni þyki mjög vænt um. „Þegar maður hefur sett sér markmið að standa sig vel bæði í skólanum og íþróttum þá situr eitthvað á hakanum. En ég á mjög góða vini og fjölskyldu sem styðja þétt við bakið á mér í öllu sem ég geri,“ segir Björk meðal annars í viðtalinu í Víkurfréttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×