Erlent

Tilnefnir nýjan hæstaréttardómara í kvöld: Trump boðar tvo dómara til Washington

atli ísleifsson skrifar
Thomas Hardiman og Neil Gorsuch eru taldir líklegastir.
Thomas Hardiman og Neil Gorsuch eru taldir líklegastir.
Donald Trump Bandaríkjaforseti mun tilkynna um hvern hann tilnefnir sem nýjan dómara við hæstarétt Bandaríkjanna í kvöld.

Trump hefur boðað þá tvo sem til greina koma, dómarana Neil Gorsuch og Thomas Hardiman, til Washington.

CNN greinir frá þessu, en samkvæmt heimildum þeirra þykir Goruch líklegri kosturinn á þessari stundu. Vitað er að Gorsuch er í Washington og þá sást til Hardiman yfirgefa Pittsburgh í morgun og aka í austurátt, áleiðis til höfuðborgarinnar.

Í frétt SVT kemur fram að hinn 49 ára Gorsuch sé þekktur fyrir skörp og vel rökstudd álit sín og sé álitinn bókstafstrúarmaður þegar kemur að túlkun stjórnarskrárinnar. Hann túlkar því texta stjórnarskrárinnar frá 1789 mjög bókstaflega.

Gorsuch starfar við alríkisdómstólinn í Dener og hefur ítrekað verið mikill málsvari trúfrelsis. Gorsuch hefur meðal annars sett sig upp á móti þeim hluta sjúkratryggingakerfis Barack Obama sem felur í sér að starfsmannatryggingar atvinnuveitenda skuli einnig taka til getnaðarvarna, sem trúarhópar hafa margir gagnrýnt.

Hinn 51 árs Hardiman starfar við alríkisdómstólinn í Philadelphia og hafa íhaldsmenn margir mært hann fyrir ritverk sín þar sem hann hefur varið rétt fólks til að bera vopn.

Staða í hæstarétti Bandaríkjanna losnaði þegar hinn íhaldssami Antonin Scalia féll óvænt frá fyrir um ári. Barack Obama Bandaríkjaforseti tilnefndi Merrick Garland sem nýjan dómara, en öldungadeild Bandaríkjaþings, þar sem Repúblikanar voru og eru í meirihluta, neituðu að staðfesta tilnefninguna.


Tengdar fréttir

Hver er Merrick Garland?

Barack Obama hefur tilnefnt Merrick Garland sem nýjan dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×