Erlent

Hvíta húsið ver aðgerðir Bandaríkjahers í Jemen

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, tók ákvörðun um árásina.
Donald Trump, tók ákvörðun um árásina. Nordicphotos/AFP
Talsmaður Hvíta hússins, Sean Spicer segir að árás bandarískra sérsveitarmanna á vígi al-Kaída hryðjuverkasamtakanna, í Jemen á sunnudaginn hafi verið „mjög vel ígrunduð.“

Árásin er sú fyrsta sem Donald Trump samþykkti, sem forseti Bandaríkjanna, en árásin hefur hlotið athygli, þar sem misvísandi heimildir herma að fjöldi almennra borgara hafi látið lífið í árásinni.

Herinn hefur sagt að fjórtán vígamenn hafi verið felldir, en ljóst er að einn hermaður lét lífið í árasinni. Að sögn Al-Kaída létust þó allt að þrjátíu almennir borgarar í árásinni. Það hefur ekki fengist staðfest.

Heimildir Reuters fréttaveitunnar innan úr bandaríska hernum segja að fimmtán konur og börn hafi mögulega dáið, en að sögn talsmanns varnarmálaráðuneytisins, voru einhverjar konur vopnaðar og skutu þær á hermennina.

Sjá einnig: „Líklegt“ að borgarar hafi dáið í árásinni í Jemen

Spicer sagði í fyrirspurnartíma með blaðamönnum, þegar hann var spurður út í aðgerðirnar, að þær hefðu þótt heppnast mjög vel.

„Það er varla hægt að kalla þetta algjörlega fullkomlega vel heppnað þar sem að fólk lét lífið og meiddist.“

„En ég held að þegar við lítum á þetta út frá heildarmyndinni, út frá því að við náðum að koma í veg fyrir að við missum mannslíf í framtíðinni, að þá var þetta fullkomin aðgerð í alla staði."

Talsmaðurinn minntist ekkert á að óbreyttir borgarar hefðu fallið í aðgerðinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×