Erlent

Kellyanne Conway komin á svartan lista CNN og MSNBC

atli ísleifsson skrifar
Kellyanne Conway.
Kellyanne Conway. Vísir/AFP
Umsjónarmenn þátta á bandarísku sjónvarpsstöðvunum CNN og MSNBC segjast framvegis ekki vilja ræða við Kellyanne Conway, ráðgjafa Donald Trump Bandaríkjaforseta, þar sem hún þykir ótrúverðugur viðmælandi.

Í frétt Washington Post kemur fram að þáttastjórnendur Morning Joe, morgunþáttar MSNBC, ætli sér framvegis ekki að fá hana í þáttinn, en Trump hefur lengi sætt talsverðri gagnrýni í þættinum.

Brzezinski segir jafnframt að Conway reyni sjálf að komast að sem viðmælandi í þættinum, en að nú sé nóg komið. „Ég mun ekki gera það, þar sem ég trúi ekki á falskar fréttir eða rangar upplýsingar. Það er þannig að í hvert sinn sem ég sé hana í sjónvarpinu, þá er það eitthvað sem er ekki í lagi eða ekki rétt.“

Fyrr í mánuðinum neitaði CNN að fá hana til að taka þátt í stjórnmálaumræðum í þætti sem sýndur er á sunnudögum. Brzezinski tísti þá og sagði að CNN væri ekki fyrst til að hafna boði um að fá Conway í þátt.

Þáttastjórnendur Morning Joe lýsa Conway sem athyglissjúkri konu sem sendi framleiðendum þátta skilaboð í tilraun til að komast í útsendingu til að ræða mál fyrir hönd Hvíta hússins þar sem hún er í raun ekki einu sinni í innsta hring.

„Hún sækir enga af mikilvægustu fundunum,“ segir Joe Scarborough, annar þáttastjórnenda Morning Joe.


Tengdar fréttir

Starfsfólk Hvíta hússins hyggst verja Trump með kjafti og klóm

Starfsmannastjóri og fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins halda því báðir fram að fjölmiðlar stundi "ósanngjarnar árásir“ gagnvart Donald Trump en ráðgjafi Trump finnst mikilvægt að starfslið Hvíta hússins komi öðrum "mögulegum staðreyndum“ út í umræðuna.

Ráðgjafi Trump auglýsti fatalínu Ivönku í sjónvarpsviðtali

Kellyanne Conway, ráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, notaði tækifærið í sjónvarpsviðtali við Fox News í dag og auglýsti fatalínu Ivönku Trump, dóttur forsetans, en verslunin Nordstrom tók línuna úr sölu á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×