Erlent

Sendir skýr skilaboð til NATO-ríkja: „Bandaríkin geta ekki greitt meira en þið fyrir öryggi barna ykkar“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
James Mattis og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
James Mattis og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. Vísir/EPA
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sendi NATO-ríkjum skýr skilaboð um að þau þyrftu að leggja meira af mörkum í sjóði bandalagsins á fundi varnarmálaráðherra NATO í dag. BBC greinir frá.

„Bandaríkin geta ekki greitt meira en þið fyrir öryggi barna ykkar,“ sagði Mattis sem hitti kollega sína í NATO í fyrsta sinn í dag og bætti við að ekki væri sanngjarnt að kostnaðurinn við að halda uppi vestrænum gildum væri að mestu leyti greiddur af bandarískum skattgreiðendum.

Bandaríkin greiða umtalsvert meira en önnur ríki til NATO og hafa frá stofnun bandalagsins verið kjölfesta þess. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði ítrekað í kosningabaráttunni fyrir forstakosningarnar á síðasta ári að NATO væri úrelt stofnun.

Mattis gekk þó ekki svo langt og sagði að bandalagið væri hornsteinn vestrænnar samvinnu, mikilvægt væri þó að önnur bandalagsríki myndu auka varnarmálaútgjöld sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×