Erlent

Loftslagsstjóri SÞ fær ekki svar frá bandaríska utanríkisráðherranum

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur enn ekki svarað ósk loftlagsstjóra Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um fund með Rex Tillerson utanríkisráðherra um hvort Bandaríkin ætli að halda sig við Parísarsamkomulagið.

Patricia Espinosa, yfirmaður loftslagssamnings SÞ, er nú í heimsókn í Bandaríkjunum. Áður en hún lagði af óskaði hún eftir fundi með Tillerson en Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því meðal annars yfir í kosningabaráttunni að hann myndi segja Bandaríkin frá Parísarsamningnum.

„Ég hef ekki fengið svar. Það er skiljanlegt á upphafsdögum nýrrar ríkisstjórnar,“ sagði Espinosa eftir loftslagsráðstefnu í Chicago þar sem hún hélt ræðu í gær að því er kemur fram í frétt Bloomberg.

Utanríkisráðuneytið svaraði ekki fyrirspurn Bloomberg þegar blaðamaður fréttastofunnar leitaði viðbragða þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×