Erlent

Michelle Obama er reið Donald Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna.
Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Michelle Obama er reið Donald Trump fyrir ætlanir hans að gera út af við baráttu hennar gegn offitu barna. Forsetafrúin fyrrverandi var stödd á heilsuráðstefnu í Washington í dag þar sem hún sendi Trump skýr skilaboð, án þess þó að nefna hann á nafn.

„Ekki abbast upp á börnin okkar.“

Fyrr í mánuðinum frysti forsetinn meðal annars reglugerð sem sneri að því að gera máltíðir í skólum í Bandaríkjunum hollari. Þá stendur til að draga úr stöðlum varðandi næringu slíkra máltíða. Það er málefni sem Obama hefur barist mikið fyrir.

Á ráðstefnunni í dag sagði hún að nauðsynlegt væri að skoða tilgang slíkra aðgerða.

„Þið verðið að hugsa: Af hverju vilt þú ekki að börnin okkar fá góðan mat í skólum? Hvað er eiginlega að þér?,“ sagði Obama við fögnuð mæðra í salnum, samkvæmt frétt Guardian. Hún velti einnig vöngum yfir því af hverju þetta væri pólitískt mál.

„Takið mig út úr jöfnunni. Hvort sem ykkur líkar við mig eða ekki og hugsið um af hverju einhverjum er sama um að börnin ykkar séu að borða drasl. Af hverju ættir þú að fagna því? Af hverju ættu þið að vera sátt við það?“

Ríkisstjórn Donald Trump hefur einnig komið í veg fyrir að veitingastöðum, verslunum og öðrum verði skylt að taka fram á matseðlum hve margar kaloríur eru í vörum sínum.

„Þú átt ekki að vita hvað þú ert að borða. Hugsið um það,“ sagði Obama.

Samkvæmt frétt Politico var ljóst að Obama var afslappaðri en hún hún var yfirleitt þegar hún var enn forsetafrú. Þá virtist hún reið á köflum. Hún sagðist ekki ætla að hætt að berjast fyrir lýðheilsu barna í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×