Steinn Jóhannsson, skólameistari FÁ, segir umræðu um hugsanlega sameiningu skólans við Tækniskólann ekki hafa haft áhrif á fjölda umsókna um skólavist.
„Umræðan hefur ekki haft þau áhrif á starfsemi FÁ að hún sé stopp,“ segir Steinn og vísar til fréttar Vísis á miðvikudag undir fyrirsögninni „Trúnaðarmaður segir starf Fjölbrautaskólans í Ármúla stopp“. Með fyrirsögninni var vísað í færslu Unnars Þórs Bachman, trúnaðarmanns kennara við FÁ, í Facebook-hópi ríflega 900 kennara. Unnar sagði þar að starf FÁ hefði laskast. „Ekki hefur verið hægt að endurskoða fjarnámssamning, skóladagatal eða annað í skólastarfinu,“ sagði Unnar.
Steinn segir að með fréttinni hafi verið vegið að þeim sem starfi við FÁ og að „starfsemi sem er í fullum blóma og óháð allri umræðu um sameiningu“. Unnar Þór undirstrikar í tölvupósti til Fréttablaðsins að hann aldrei sagt að „allt væri stopp í Ármúla“ heldur aðeins að „skólinn hefði laskast.“
Að sögn Steins hefur í júní verið unnið að innritun á haustönn og innritun í fjarnám á sumarönn, að mati eldri nemenda í nám, innheimtu skólagjalda, kennsluskiptingu næsta skólaárs, viðtölum við foreldra/forráðamenn, ásamt fleiri verkefnum.
„Á sumarönn stunda hátt í sjö hundruð nemendur fjarnám og eru um það vil eitt hundrað fleiri nemendur en í fyrra,“ segir Steinn og bendir sem fyrr getur á að umræðan hafi ekki haft áhrif á fjölda umsókna. Til dæmis hafi umsóknir 23. júní síðastliðinn verið rúmlega 400 miðað við 380 umsóknir sama júnídag í fyrra þegar umsóknarfresti um skólavist hafi lokið.
Fleiri sækja um nám í Fjölbrautarskólanum við Ármúla

Tengdar fréttir

Trúnaðarmaður segir starf Fjölbrautarskólans í Ármúla stopp
Unnar Þór Bachmann, trúnaðarmaður kennarara í Fjölbrautaskólanum Ármúla, segist hafa „einhvern veginn á tilfinningunni að það sé verið að reyna að skemma kerfið til þess að koma einkavæðingu á“.

Sex hópar mótmæla sameiningu FÁ og Tækniskólans á Austurvelli
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli í dag klukkan 15 vegna umræðunnar um sameiningu Tækniskólans og Fjölbrautarskólans við Ármúla.