Sport

Hljóp einn og komst í undanúrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Isaac Makwala er kominn í undanúrslit í 200 metra hlaupi.
Isaac Makwala er kominn í undanúrslit í 200 metra hlaupi. vísir/getty
Isaac Makwala frá Botsvana tryggði sér sæti í undanúrslitum í 200 metra hlaupi karla á HM í frjálsum íþróttum í London nú síðdegis.

Það er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Makwala hljóp einn.

Ástæðan fyrir því er að Makwala greindist með nóróveirusýkingu. Samkvæmt reglum Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins þurfa keppendur sem sýna einhver einkenni veikinda að vera í sóttkví í 48 klukkutíma.

Makwala missti því af undanrásunum í 200 metra hlaupi og úrslitum í 400 metra hlaupi. Það var hins vegar ákveðið að gefa honum tækifæri á því að komast í undanúrslitin í 200 metra hlaupi og Makwala hljóp því einn síðdegis.

Botsvana-maðurinn þurfti að hlaupa a.m.k. á 20,53 sekúndum til að komast í undanúrslitin. Og það tókst. Makwala hljóp á 20,20 sekúndum og tryggði sér sæti í undanúrslitunum sem fara fram klukkan 19:55 í kvöld.

Makwala tók nokkrar armbeygjur eftir að hann kom í mark.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×