Skoðun

Dýr ábyrgð

Gunnlaugur Stefánsson skrifar
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur lagst gegn áformum um laxeldi í Viðfirði og Hellisfirði, vilja varðveita friðsæld þeirra og náttúrlegt yfirbragð. Því ber að fagna. En af hverju má fórna þeim gæðum á Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði þar sem friðsæld og náttúrfegurð er ekki síðri – og einmitt þar sem fólkið býr og nýtur innilega alla daga?

Í Noregi hafa allar nýfjárfestingar í laxeldi með opnum sjókvíum verið bannaðar. Sú tækni er nú talin úrelt vegna hrikalegrar reynslu fyrir lífríkið. Þess vegna sækja norsku eldisrisarnir til Íslands þar sem þeim hefur verið talin trú um að flest sé leyfilegt, eftirlitið viðráðanlegt og fá sjóinn auk þess ókeypis til afnota, en þurfa að borga offjár fyrir í Noregi. Svo krefjast nokkrir sveitarstjórnarmenn á íslenskum eldissvæðum af ráðherrum, að eldis­risarnir megi fara sínu fram hér á landi. Ekki á Austfjörðum, þar sem efasemdir vakna eins og birtist í fyrirvara bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. En betur má ef duga skal.

Flestir sjá að opið sjókvíaeldi með innfluttum stofnum er tímaskekkja. Nú er öllu nýju eldi víðast hvar stefnt í lokaðar kvíar eða uppi á landi. Ef áform norsku eldisrisanna um 190 þúsund tonna eldi í opnum sjókvíum ná fram að ganga, þá yrði Ísland að athlægi um víða veröld í umhverfismálum. Náttúruauðlindir íslenskra fjarða og villtir laxastofnar eru einstök gæði sem eldið skaðar og verða hvorki endurheimt né metin til fjár. Norðmenn og fleiri þjóðir súpa seyðið af þeirri reynslu og grípa nú til örþrifaráða. Laxeldi á Íslandi er líka samfelld hrakfallasaga. Fiskur sleppur úr kvíum, líka þessum sem eldismenn segja nýjar og fullkomnar, lúsin og sjúkdómar herja, hitastig og sjólag í sveiflum. Hverjir bera ábyrgð á tjóninu þegar spilaborgir laxeldis falla? Fólkið í sveitarfélögunum á eldissvæðum? Ekki norsku eldisrisarnir. Þeim er ekki gert að bera neina ábyrgð á því. En heimta gróðann á meðan varir.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×