Ástæðan er sú að enginn verktaki svaraði útboði Reykjavíkurborgar vegna framkvæmdarinnar. Sverrir Bollason, fulltrúi Samfylkingarinnar í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur segir mikla þenslu á byggingamarkaði og magn framkvæmda valda þessari stöðu.
„Í þessu árferði þá finnum við mjög vel fyrir þenslueinkennum. Við sem sitjum í umhverfis- og skipulagsráði við höldum utan um stefnumörkunina og höfum ákveðnar hugmyndir um hvar við við viljum setja niður betri göngutengingar og fleiri hjólastíga,“ segir Sverrir í samtali við fréttastofu.

Verktakar geti forgangsraðað
Hann segir að í einhverjum verkefnum á árinu hafi einfaldlega ekki gengið að fá viðunandi tilboð eða nokkuð tilboð í framkvæmdir.„Þetta er auðvitað mjög bagalegt þegar maður er að reyna að ýta áfram þeim verkefnum sem þarf að klára en er kannski mjög lýsandi fyrir hvað það er rosalega mikið að gera í byggingabransanum. Það er verið að byggja alls staðar og verktakarnir geta aðeins forgangsraðað sínum verkefnum og valið stærri og einfaldari verkefni fram yfir minni eða flóknari verkefni. Ég átta mig ekki nákvæmlega á því hvað býr að baki.“
Hann segir dæmin fleiri en bara Birkimelur.

Hugmynd íbúa sem átti að verða að veruleika
Hugmynd um að endurnýja gangstétt og gera hjólastíg við Birkimel kom frá íbúa í verkefninu Hverfið mitt í fyrra. Hlaut hugmyndin brautargengi í kosningunum og var valin til framkvæmda. Verja átti tíu milljónum til verkefnisins.Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur ákvað hins vegar að bæta um betur og ráðast í fyrrnefndar framkvæmdir. Til dæmis átti að færa biðstöðvar Strætó við götuna, endurnýja gróður og lækka hámarkshraða úr 50 km/klst. í 30 km/klst.
Framkvæmdin varð nokkuð umdeild þegar fregnir bárust af kostnaði við hana en kostnaðarmat við hana er 115 milljónir króna. Verkkostnaður er um 80 milljónir og ófyrirséður kostnaður um 16 milljónir. Þetta kom fram í skýrslu verkfræðistofunnar Eflu fyrir Reykjavíkurborg.
Uppfært 14:45:
Upprunalega tillagan var samþykkt í Borgarráði þann 27. apríl og var þá gert ráð fyrir að framkvæmdin myndi kosta rúmar 115 milljónir. Á fundi borgarráðs viku síðar þann 4. maí voru lögð fram leiðrétt fylgiskjöl og ný hönnun þar sem fram kom að kostnaðarmat væri 45 milljónir. Var tillagan þá samþykkt með breytingum.