Liam Fox, ráðherra alþjóðaviðskipta í Bretlandi, segir að Bretar megi ekki láta Evrópusambandið kúga sig í Brexit-viðræðunum.
Fox segir að viðræður um framtíðarskipulag samskipta Breta við ESB verði að hefjast sem fyrst því annars bitni það á viðskiptahagsmunum þeirra.
Ráðherrann segir að fyrirtæki um allan heim séu orðin óþolinmóð vegna þess hve hægt gangi í viðræðunum en aðalsamningamaður ESB, Michel Barnier, sagði í gær að lítið hafi gengið að koma stóru málunum áleiðis og að langt sé í að viðræður um samskiptin til framtíðar hefjist.
Bretar vilja hefja viðræður um framtíðarskipulag samskipta við ESB strax, en sambandið segir ekki hægt að byrja slíkar viðræður fyrr en semjist um hvernig útgöngu Breta verður háttað.
Enn eigi eftir að útkljá stór mál á borð við hversu mikið Bretar greiði fyrir útgönguna, hvernig réttindum borgara ESB í Bretlandi verði háttað og hvernig landamæri Norður-Írlands og Írlands verði úr garði gerð.

