Handbolti

Birna Berg og félagar risu upp frá dauðum í Ringkøbing

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir.
Birna Berg Haraldsdóttir. Vísir/Getty
Birna Berg Haraldsdóttir og félagar hennar í danska úrvalsdeildarliðinu Aarhus United áttu möguleika á því að vinna leik sinn við Ringköping í kvöld þrátt fyrir vonlitla stöðu aðeins tólf mínútum fyrir leikslok.

Ringköping var þá sex mörkum yfir, 22-16, þegar aðeins tólf mínútur voru eftir af leiknum en heimastúlkur í Ringköping höfðu þá náð 7-0 spretti.

Birna Berg og stelpurnar í Aarhus United gáfust ekki upp og svöruðu með sex mörkum í röð en þær náðu með því að jafna leikinn í 22-22.

Aarhus United skoraði hinsvegar jöfnunarmarkið tæpum þremur mínútum fyrir leikslok en hvorugu liðinu tókst að tryggja sér sigur á lokamínútunum.

Aarhus United átti lokaskotið en það fór framhjá. Lokatölurnar urðu því 22-22.  Þetta var fyrsta stig Aarhus United í dönsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Birna Berg Haraldsdóttir skoraði 2 mörk úr 6 skotum í leiknum en annað marka hennar kom af vítapunktinum. Hún var einnig með eina stoðsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×