Körfubolti

Einn frægasti þjálfari Bandaríkjanna sendur í ólaunað leyfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rick Pitino.
Rick Pitino. Vísir/Getty
Rick Pitino, þjálfari University of Louisville í bandaríska háskólaboltanum, var í gær sendur í ólaunað leyfi á meðan rannsókn á spillingarmálum innan bandaríska háskólakörfuboltans stendur yfir. Bandarískir fjölmiðlar greina frá þessu.

Pitino er meðlimur í heiðurshöll körfuboltans og gerði Louisville að háskólameisturum árið 2013. Hann hefur hinsvegar alltaf verið umdeildur og þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann blandast inn í vafasöm mál.

Spillingarmálið kom fram í dagsljósið í vikunni eftir þriggja ára rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, en fjórir aðstoðarþjálfar virtra skóla voru þá ákærðir fyrir að taka þátt í svindli sem miðaði að því að koma peningum til fjölskyldna eftirsótta leikmanna sem völdu síðan að koma í þeirra skóla.

Rannsóknin leiddi það í ljós að James Gatto, sem er yfirmaður hjá Adidas, hafi einnig komið stórum greiðslum til þriggja leikmanna gegn því að þeir hafi samþykkt að spila fyrir ákveðna skóla.

Sjá einnig: Bandaríski háskólakörfuboltinn í vandræðum eftir rannsókn FBI

Leikmenn í háskólaboltanum mega ekki þiggja nein laun á meðan þeir spila en þeir bestu geta valið á milli skóla sem sumir hafa greinilega freistast að bjóða þeim meira en þeir mega.

University of Louisville hefur ekki fengið á sig neina kæru ennþá og heldur ekki einhverjir starfsmenn skólans. Rannsóknin stendur hinsvegar enn yfir og nafn Rick Pitino hefur blandast inn í umræðuna. Yfirmenn skólans voru því fljótir að bregðast við.

Steve Pence, umboðsmaður Pitino, leit svo á að Rick Pitino hafi hreinlega verið rekinn en yfirmenn skólans segjast ætla að fara aftur yfir stöðuna seinna og meta það þá hvort að Pitino geti snúið aftur til starfa. Það eru þó ekki margir sem búast við að karlinn eigi afturkvæmt í þjálfun eftir þetta.

Rick Pitino hefur lent í ýmsum leiðindamálum á sextán árum sínum í þjálfarastólnum hjá Louisville skólanum þar á meðal var rannsókn á því hvort hann hafi notað nektardansmær og vændiskonur til að hjálpa að sannfæra eftirsótta körfuboltastráka að koma í skólann.

Pitino, sem er orðinn 65 ára gamall, kom til Louisville eftir fjögur ár sem þjálfari Boston Celtics. Hann sló fyrst í gegn sem þjálfari University of Kentucky þar sem hann vann háskólatitilinn með liðið árið 1996.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×