Fótbolti

Ronaldo loksins laus úr banninu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo ýtir við Ricardo De Burgos Bengoetxea. Hann hefði betur sleppt því enda var fjögurra leikja bann eina sem hann hafði upp úr krafsinu.
Ronaldo ýtir við Ricardo De Burgos Bengoetxea. Hann hefði betur sleppt því enda var fjögurra leikja bann eina sem hann hafði upp úr krafsinu. vísir/getty
Cristiano Ronaldo snýr aftur í lið Real Madrid þegar það tekur á móti Real Betis í 5. umferð spænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Ronaldo er laus úr fimm leikja banni sem hann fékk vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í fyrri leik Real Madrid og Barcelona í spænska Ofurbikarnum í síðasta mánuði.

Ronaldo sem inn á sem varamaður á 58. mínútu og kom Real Madrid yfir með glæsilegu marki á 80. mínútu. Portúgalinn fékk gult spjald fyrir að rífa sig úr að ofan eftir markið og aðeins tveimur mínútum síðar fékk hann sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir leikaraskap.

Ronaldo var langt frá því að vera sáttur með þessa niðurstöðu og hrinti Ricardo De Burgos Bengoetxea, dómara leiksins. Fyrir það fékk hann fjögurra leikja bann ofan á eins leiks bannið sem hann fékk fyrir rauða spjaldið.

Ronaldo missti af seinni leiknum um Ofurbikarinn og svo af fjórum fyrstu deildarleikjum Real Madrid.

Madrídingar unnu tvo af þessum fjórum leikjum án Ronaldos og gerðu tvö jafntefli. Real Madrid er því með átta stig, sjö stigum á eftir toppliði Barcelona.

Leikur Real Madrid og Real Betis hefst klukkan 20:00 í kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 6.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×