Handbolti

Janus Daði með stórleik í tapi gegn Kielce | Enn eitt tapið hjá Kiel

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Janus Daði Smárason var atkvæðamestur í liði Álaborgar í kvöld.
Janus Daði Smárason var atkvæðamestur í liði Álaborgar í kvöld. mynd/aab
Janus Daði Smárason átti flottan leik þrátt fyrir fjögurra marka tap Álaborgar 30-34 gegn Vive Kielce í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag.

Álaborg situr því áfram í botnsæti B-riðilsins með tvö stig eftir sjö umferðir en pólska liðið lyfti sér upp í 4. sæti með sigrinum.

Fyrri hálfleikurinn var kaflaskiptur, gestirnir frá Póllandi náðu yfirhöndinni snemma, gáfu aðeins eftir þegar líða tók á hálfleikinn en gáfu aftur í og náðu fjögurra marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks.

Forskotinu var aldrei ógnað í seinni hálfleik, þeir héldu danska liðinu í góðri fjarlægð og sigldu sigrinum örugglega heim.

Janus Daði var markahæstur í danska liðinu með átta mörk úr aðeins ellefu skotum en Arnór Atlason komst ekki á blað í leiknum.

Þá tapaði Kiel undir stjórn Alfreðs Gíslasonar enn einum leiknum í B-riðli gegn Celje á heimavelli 26-29 á sama tíma en Kiel er aðeins með fimm stig eftir sjö umferðir.

Þýska félagið leiddi með einu marki í háfleik 15-14 en slóvenska liðið náði að snúa leiknum sér í hag á lokakaflanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×