Handbolti

Halldór: Hafði trú á markmönnunum okkar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Halldór og félagar eru komnir áfram í 3. umferð EHF-bikarsins.
Halldór og félagar eru komnir áfram í 3. umferð EHF-bikarsins. vísir/anton
Halldór Sigfússon, þjálfari FH, var að vonum ánægður eftir sigur Fimleikafélagsins á St. Pétursborg í umdeildri vítakastkeppni í morgun.

FH-ingar unnu vítakeppnina 3-4 og tryggðu sér þar með farseðilinn í 3. umferð EHF-bikarsins þar sem þeir mæta Tatron Presov frá Slóvakíu.

„Ég er auðvitað gríðarlega ánægður,“ sagði Halldór í samtali við Vísi eftir vítakeppnina.

En hvernig undirbýr maður lið fyrir vítakeppni, eina og sér?

„Aðallega andlega og svo fórum við yfir vítin í vikunni. Við skoðunum Rússana og markmennina þeirra,“ sagði Halldór.

Ásbjörn Friðriksson klikkaði á fyrsta víti FH-inga eftir að Rússarnir skoruðu úr sínu fyrsta víti.

„Ég hafði ekki áhyggjur. Menn geta klikkað á vítum. Ég hafði trú á markmönnunum okkar, að þeir myndu taka 1-2 víti,“ sagði Halldór en Ágúst Elí Björgvinsson varði annað og þriðja víti Rússanna.

FH-ingar kláruðu svo síðustu fjögur vítin sín og tryggðu sér sigurinn. Við tekur nú langt ferðalag heim til Íslands. Halldór segir að sigurinn geri það mun bærilegra.

„Klárlega. Það var gott að klára þetta. Vissulega er það miklu skemmtilegra að fara heim með sigur í farteskinu. Núna einbeitum við okkur að næsta verkefni sem er leikur gegn ÍBV á miðvikudaginn,“ sagði Halldór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×