Innlent

Fleiri kvartanir vegna rafræns eftirlits með starfsmönnum

Ingvar Þór Björnsson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Færst hefur í aukana að vinnuveitendur fylgist með starfsmönnum sínum í gegnum smáforrit og fær Persónuvernd nú vikulega fyrirspurnir eða kvartanir vegna þessa. Forstjóri Persónuverndar segir mikilvægt að eigendur fyrirtækja gæti meðalhófs og passi að vöktunin sé málefnaleg.

Mörg fyrirtæki á Íslandi nota rafrænt eftirlit til að fylgjast með starfsmönnum sínum á vinnustaðnum. Starfsmenn eru þá undir stöðugu eftirliti á meðan fyrirtækin safna upplýsingum um þá. Helga Þórisdottir, forstjóri Persónuverndar, segir að undanfarið hafi ábendingum og kvörtunum vegna slíks eftirlits fjölgað. 

„Það er verið að fylgjast með starfsmönnum í gegnum nýja tækni. Allt rýnið er að verða meira og úrvinnslan er komin á allt annað stig en við þekktum áður. Þetta er málaflokkurinn sem í rauninni er stöðugt að koma til okkar í hverri einustu viku, bæði fyrirspurnir og ábendingar,“ segir Helga.

Rafræn vöktun heimil upp að vissu marki

Þá segir Helga að rafræn vöktun sé að breytast með tækninni. „Nú hefur það til dæmis verið að færast í vöxt að í stað þess að vera með verkstjórn á staðnum þá fylgist eigandi með sínum eignum og eigum annað hvort heiman frá sér eða hreinlega í símanum. Starfsmenn fá þá reglulega fyrirspurnir um það eða ábendingar um það að þeir eigi ekki að afgreiða í úlpu eða að þeir eigi ekki að vera svona lengi í kaffi.“

Helga útskýrir að rafræn vöktun sé heimil upp að vissu marki en hún þurfi þó að vera málefnaleg. Nauðsynlegt sé að það fari fram mat á hagsmunum vinnuveitenda, annars vegar á því að vinnsla persónuupplýsinga eigi sér stað, og hins vegar rétti starfsmanns til friðhelgi einkalífs. „Ef það er hægt að viðhafa eftirlit án þess að það sé rafrænt þá sé það oftast vænlegri kostur,“ segir Helga og bætir við að til dæmis sé betra að fyrirtækin hafi verkstjórn á staðnum eða að eigendur séu sýnilegri.

Helga útskýrir að það sé algjört grundvallaratriði að ekki fari fram rafræn vöktun nema að starfsmenn séu upplýstir um að upptaka sé í gangi á vinnutíma.

„Það má ekki vinna persónuupplýsingar um aðra nema hafa til þess heimild. Til þess að hafa heimildina þá þarf fólk til að byrja með að vita af þessu. Mjög oft er það þannig að það er klikkað á því að fræða fólk um þetta vöktun sem á sér stað,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×