Í viðmiðunarreglum sambandsins segir að undir annað, og síðara, stigið falli framtíðarsamskipti Evrópusambandsins og Breta eftir Brexit. Undir fyrra stigið falli hins vegar viðræður um aðskilnaðargreiðslur Breta, réttindi breskra ríkisborgara búsettra annars staðar innan ESB og öfugt sem og landamæragæsla á landamærum Írlands og Norður-Írlands.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, þakkaði Donald Tusk, forseta leiðtogaráðsins, og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, kærlega fyrir í gær. „Nú hefur mikilvægt skref verið stigið í áttina að hnökralausri útgöngu ásamt því að tryggja áframhaldandi samstarf og samvinnu,“ sagði hún.

Juncker sagði að nú þyrfti að reka smiðshöggið á samkomulagið sem náðist á fyrsta stigi viðræðna. „Annað stig viðræðna verður mun erfiðara en hið fyrsta, sem var þó ansi flókið,“ bætti hann við. Juncker hrósaði May jafnframt og sagði hana harðan, greindan og kurteisan samningamann. Hann væri þó sannfærður um að hægt væri að ná samningi sem bæði breska þinginu og Evrópuþinginu litist vel á.