Handbolti

Teitur Örn á leið til Kristianstad

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Teitur Örn Einarsson, stórskytta Selfyssinga.
Teitur Örn Einarsson, stórskytta Selfyssinga. vísir/vilhelm
Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson hefur gengið frá samningum við sænska liðið Kristianstad. Félagið greindi frá þessu í dag.

Teitur er 19 ára gamall og hefur farið á kostum með liði Selfoss í Olís deildinni í vetur en hann er markahæstur í deildinni eins og er með 107 mörk úr 14 leikjum.

Hann samdi við Kristianstad til ársins 2020 en mun þó ekki ganga til liðs við félagið fyrr en í sumar svo hann getur klárað tímabilið með Selfossi.

Í Kristianstad eru fyrir þrír Íslendingar, Arnar Freyr Arnarsson, Gunnar Steinn Jónsson og Ólafur Guðmundsson.

„Við erum mjög ánægðir að Teitur hafi ákveðið að koma til okkar, þrátt fyrir áhuga frá liðum úr Bundesligunni. Hann er mjög hæfileikaríkur og lítur út fyrir að passa vel í hópinn,“ sagði íþróttastjóri Kristianstad, Jesper Larsson við heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×