Gera má ráð fyrir því að skyggni og færð spillist ört, ekki síst á fjallvegum en einnig í íbúagötum á Suðurlandi og suðvesturhorninu.
Það verður þó nokkuð úrkomulítið á Austurlandi og frostið bærilegt, á bilinu 1 til 6 síðdegis.

Svo snýst aftur í suðvestanátt á miðvikudag með éljagangi sunnan- og vestanlands - en útlit er fyrir svipað veður áfram á fimmtudag. Þá er gert ráð fyrir umhleypingasömu veðri um helgina.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Minnkandi vestanátt og él fram yfir hádegi V-til, en léttskýjað á A-verðu landinu. Frost 2 til 15 stig, kaldast í innsveitum NA-lands. Snýst í vaxandi suðaustanátt á SV- og V-landi um kvöldið.
Á miðvikudag:
Suðaustan hvassviðri með snjókomu eða rigningu um morguninn, síðan talsvert hægari suðvestanátt með éljum, fyrst V-til. Kólnar í veðri og léttir til á NA- og A-landi seinni partinn.
Á fimmtudag og föstudag:
Suðvestanátt og él, en þurrt og bjart veður á NA- og A-landi. Frost 1 til 10 stig, kaldast fyrir norðan og austan.