Innlent

Gert að greiða 7 milljónir vegna „tíu dollara-hússins“ á Flórída

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sævar og verjandi hans við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjaness árið 2015.
Sævar og verjandi hans við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjaness árið 2015. vísir/ernir
Hæstiréttur staðfesti í vikunni dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir Sævari Jónssyni, kaupmanni og fyrrverandi landsliðsfyrirliða í knattspyrnu, um að Sævar skyldi greiða Pillar Securitisation Sarl, banka í Lúxemborg, rúmar sjö milljónir króna vegna íbúðarhúss á Flórída.

Þann 9. júní 2016 staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðdsóms Reykjaness þess efnis að Sævar, sem iðulega var kenndur við Leonard, yrði dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir skilasvik.

Sævari var gefið að sök að hafa komið undan íbúðarhúsinu á Flórída, sem hann og eiginkona hans keyptu árið 2007 á rúmlega 657 þúsund Bandaríkjadali, eða um 65 milljónir króna á núverandi gengi, skömmu áður en hann var úrskurðaður gjaldþrota árið 2010.

Pillar Securitisation krafðist skaðabóta frá Sævari vegna háttseminnar en hann hafði afsalað eigninni til félags, þar sem hann gengdi stjórnarformennsku, fyrir tíu dollara. Hann var þannig sagður hafa skotið eignarhluta sínum undan búskiptunum eða varið andvirði eignarhlutans til greiðslu tiltölulega hárrar gjaldkræfrar kröfu. Þá byggði Pillar Securitisation kröfu sína á því að Sævar hefði með þessu valdið þeim verulegu tjóni.

Sjálfur fór Sævar fram á að hann yrði sýknaður af kröfum stefnanda en því var hafnað. Sævar var þannig dæmdur til að greiða Pillar Securitisation 7,3 milljónir króna vegna hússins á Flórída auk 500 þúsund króna í málskostnað.

Dóm Hæstaréttar má lesa í heild hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×