Handbolti

Enn og aftur fer Stefán Rafn á kostum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stefán hættir ekki að raða inn mörkum í Ungverjalandi.
Stefán hættir ekki að raða inn mörkum í Ungverjalandi. vísir/getty
Stefán Rafn Sigurmannsson var enn eina ferðina funheitur fyrir Pick Szeged sem vann fjórtán marka sigur, 36-22, á Ferencvaros í ungversku úrvalsdeildinni í handbolta.

Stefán Rafn var á nýjan leik valinn í íslenska landsliðið í dag þegar Guðmundur Þórður Guðmundsson opinberaði landsliðshópinn sem fer á fjögurra þjóða mót í Noregi síðar í mánuðinum.

Pick Szeged var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17-15, en í síðari hálfleik varð þetta leikur kattarins að músinni og lokatölur 36-22. Stefán Rafn var enn og aftur frábær, en hann hefur leikið á alls oddi í vetur. Hann skoraði níu mörk í kvöld.

Szeged er tveimur stigum á eftir Veszprém í baráttunni um ungverska meistaratitilinn.

Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í Álaborg unnu þriggja marka sigur á TM Tønder, 31-28, eftir að staðan hafi verið jöfn í hálfleik, 15-15.

Arnór Atlason skoraði ekki mark úr þeim tveimur skotum sem hann skaut, en Janus Daði Smárason er enn á meiðslalistanum. Darri Aronsson, sonur Arons, var á leikmannalista Álaborgar í dag, en hann er ungur að árum.

Álaborg er í fimmta sætinu með 28 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×