Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Haukar 75-72 │Keflavík sótti oddaleik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðmundur hefur verið að spila vel fyrir Keflavík.
Guðmundur hefur verið að spila vel fyrir Keflavík. vísir/bára
Keflavík náði í oddaleik í einvígi sínu við Hauka í 8-liða úrslitum með þriggja stiga sigri, 75-72, á heimavelli sínum suður með sjó í leik fjögur í kvöld.

Eins og oft áður í körfubolta var leikurinn mjög sveiflukenndur framan af. Haukar byrjuðu mun betur og voru komnir sjö stigum yfir í fyrsta leikhluta. Þá var tilfinningin sú að Haukar myndu keyra á Keflvíkinga og þetta yrði enginn leikur.



Heimamenn komu hins vegar vel til baka og aðeins munaði þremur stigum eftir fyrsta leikhluta. Keflavík kom miklu betur inn í annan leikhluta og komust í átta stiga forystu þegar ekkert virtist ganga hjá Haukum. Það er hins vegar ekki að ástæðulausu að Haukar eru deildarmeistarar.

Þeir komu til baka og náðu að koma leiknum niður í tvö stig áður en Hörður Axel Vilhjálmsson setti niður körfu og sá til þess að fjögurra stiga munur, 42-38, væri í hálfleik.

Keflvíkingar náðu að halda forskoti sínu í upphafi þriðja leikhluta en liðin skiptust á að skora. Haukar náðu svo aðeins að klóra í bakkann en Keflavík hélt í tveggja stiga forystu fyrir loka leikhlutann.

Þar var allt í járnum og baráttan gríðarleg. Liðunum gekk ekkert of vel að ná sér í stig og liðu um þrjár, fjórar mínútur án þess að stig væru skoruð. Haukar jöfnuðu leikinn þegar fimm mínutur voru eftir og enn var jafnt þar til 44 sekúndur voru eftir af leiknum.

Þá náðu Keflvíkingar forystu og Haukar fóru að brjóta mikið á þeim sem skilaði sér í sex stiga forystu Keflavíkur þegar lítið var eftir. Paul Anthony Jones setti þrist fyrir Hauka á loka sekúndunum, en það dugði ekki til, þriggja stiga sigur Keflavíkur staðreynd.

Afhverju vann Keflavík?

Það sem aðskildi liðin mest í kvöld var gríðarleg barátta og vilji í liði Keflavíkur. Bæði lið voru að spila nokkuð áþekkt þannig, hvorugt með neina frábæra skotnýtingu, varnir beggja liða góðar, Keflavík var bara skrefinu framar og það var helst baráttan sem skilaði þessu auka skrefi.

Hverjir stóðu upp úr?

Hörður Axel Vilhjálmsson og Christian Dion Jones voru virkilega sterkir í liði Keflavíkur. Þá átti Magnús Már Traustason nokkrar stórar og mikilvægar körfur.

Í liði Hauka var Kári Jónsson áberandi bestur og dró liðið áfram.

Hvað gekk illa?

Haukar voru að hitta alveg hrikalega í þessum leik, oft úr mjög opnum skotum. Keflavík var ekki með neina framúrskarandi nýtingu, en það varð Haukum að falli í kvöld hvað þeir hittu illa.

Hvað gerist næst?

Það þarf að fá einhver úrslit í þetta einvígi og því þarf oddaleik. Hann verður á Ásvöllum eftir tvo daga, á miðvikudaginn.

Friðrik Ingi þungt hugsi í kvöld en hann skákaði Ívar Ásgrímsson í kvöld.vísir/bára
Friðrik: Gerðum þeim erfitt fyrir

„Fyrst og fremst virkilega góður varnarleikur lengstum,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, í viðtali við Svala Björgvinsson strax eftir leikinn aðspurður hvað hafi skapað þennan sigur.

„Við gerðum þeim erfitt fyrir á vissum stöðum. Sóknarleikurinn var mjög köflóttur hjá báðum liðum og við gerðum okkur þetta pínu erfitt fyrir. En samt nóg og ég er mjög ánægður með það. Áhorfendurnir frábærir og stemmingin æðisleg. Þetta var okkar kvöld.“

Keflavík spilaði virkilega flottan varnarleik og náði oft á tíðum að loka á allar sóknaraðgerðir Hauka í leiknum.

„Við höfum verið undir í frákastabaráttunni mjög oft í vetur en við höfum bætt það upp með því að vera með færri tapaða bolta en andstæðingurinn. Spilum mjög góða og markvissa vörn sem þvingar þá í að tapa boltum,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson. 

Ívar rúmlega ósáttur með dómarana í kvöld.vísir/bára
Ívar: Menn ekki alveg tilbúnir í hausnum

„Við vorum ekki nógu skynsamir í lokin, eins og í síðasta leik líka. Við þurfum að vera aðeins sterkari, erum að taka lélegar ákvarðanir í lokin. En við vorum heldur ekki að setja hann, Finnur var að fá frí skot og er búinn að hitta þessu í allan vetur en brenndi af í dag. Vonandi eigum við þetta inni á miðvikudaginn,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjáflari Hauka, eftir leik.

Haukar voru með 20 tapaða bolta í leiknum í kvöld sem fór langt með að kosta þá sigurinn.

„Við töluðum um það í hálfleik að við þyrftum að passa boltann betur og við gerðum það vel að við töpuðum aftur 10 boltum í seinni hálfleik. Það er ekki gott og mikið af kæruleysislegum töpuðum boltum. Þá eru menn ekki alveg tilbúnir í hausnum,“ sagði Ívar Ásgrímsson.

 

Hörður Axel Vilhjálmsson.Vísr/Andri Marinó
Hörður: Hafði smá áhyggjur í byrjun

„Þetta er svipað og í síðustu tveimur leikjum. Við erum búnir að finna ryþmann, sérstaklega varnarlega, fastir fyrir og þeir þurfa að hafa fyrir öllu sem þeir gera,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson eftir leikinn.

„Ég hafði smá áhyggjur í byrjun þegar Kári setti einhverja þrjá þrista og komst í gírinn, en við náðum að loka á það eins vel og við getum.“

„Við þurfum að frákasta betur, bakverðirnir þeirra eru að koma inn í fráköstin líka og við þurfum að koma allir inn og ná í þá.“

Veturinn hefur ekki gengið að óskum hjá Keflvíkingum en þeir eru að springa út á réttum tíma.

„Við tökum bara einn dag í einu eins og er. Við erum í áttunda sæti og eina liðið sem þvingar oddaleik á móti jafnbesta liðinu í vetur þannig að við getum eitthvað,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson.

Kári JónssonVísr/anton
Kári: Má hrósa vörninni hjá þeim

„Við erum ekkert að velta okkur upp úr stöðunni. Nú er einn leikur á okkar heimavelli upp á hver fer áfram og okkur líður ágætlega með það,“ sagði Kári Jónsson.

Keflavík var ívið sterkari aðilinn í varnarleiknum í kvöld og þvingaði Haukana í erfið skot og tapaða bolta.

„Þeir eru að spila hörku vörn og eru að þvinga okkur í erfiðleika. Við lendum svolítið í vandræðum í fyrri en leystum þetta ágætlega í seinni.“

„Þetta voru sendingar á milli manna sem fóru til hliðar eða framhjá og það finnst mér vera kæruleysi. Á sama skapi má hrósa vörninni hjá þeim og þeir settu stóru skotin í dag.“

„Við horfum á þennan leik og skoðum hvað við getum gert betur og fínpússað og svo mætum við brjálaðir í oddaleikinn,“ sagði Kári Jónsson.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira