Skoðun

Um krónuvanda Svía

Ingimundur Gíslason skrifar
Árið 2003 var tillaga um upptöku evru í Svíþjóð felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Margir málsmetandi Svíar telja nú að það hafi verið mikil mistök.

Í nýlegri umfjöllun sænska dagblaðsins Dagens Industri kemur fram að sænska krónan hafi ekki reynst stöðugur gjaldmikill. Hún hefur til dæmis fallið mikið í verðgildi upp á síðkastið, einkum vegna mínusvaxtastefnu Sænska seðlabankans. Afleiðingin er versnandi kjör almennings þar sem innfluttar vörur og þjónusta hafa hækkað mikið í verði. Utanlandsferðir verða fólki of dýrar nema kannski helst til Venezuela eða Zimbabwe. Almenningur er látinn borga brúsann en fyrirtæki í útflutningi og hluthafar þeirra græða. Kannast ekki einhver hér á landi við svona ástand?

Í Svíþjóð búa um það bil 10 milljónir manna. Útflutningsiðnaður er háþróaður, þeir framleiða meira að segja bíla og orustuþotur, bæði til eigin nota og til útflutnings. Miðað við Ísland er Svíþjóð stórþjóð með öflugt atvinnulíf. Samt eru þeir í vandræðum með að halda uppi eigin mynt.

Það er goðsögn, sem varla stenst, að best sé að hafa fljótandi eigin mynt þegar eitthvað bjátar á í þjóðarbúskapnum. Að vísu gefst þá lélegum stjórnmálamönnum tækifæri til að leiðrétta eigin mistök á kostnað fólksins í landinu. Reynsla í öðrum löndum sýnir kosti þess að búa við stöðugan gjaldmiðil í samvinnu við aðrar þjóðir. Hins vegar er erfitt fyrir eina þjóð að halda uppi fastgengisstefnu. Á seinni hluta síðustu aldar var þó fastgengisstefna við lýði um stutt tímabil í Svíþjóð og jókst þá framleiðni í sænskum iðnaði um 30 prósent.

Höfundur er augnlæknir




Skoðun

Sjá meira


×