Handbolti

Ragnar með fjögur mörk í tapi Hüttenberg

Einar Sigurvinsson skrifar
Ragnar Jóhannsson fór frá Selfoss til FH og þaðan til Þýskalands.
Ragnar Jóhannsson fór frá Selfoss til FH og þaðan til Þýskalands. Vísir/Vilhelm
Íslenski landsliðsmaðurinn, Ragnar Jóhannsson, skoraði fjögur mörk þegar lið hans Hüttenberg tapaði fyrir Magdeburg, 31-37, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Auk þess að skora fjögur mörk gaf Ragnar tvær stoðsendingar fyrir Hüttenberg en sigur Magdeburg var aldrei í hættu. Magdeburg var átta mörkum yfir í hálfleik, 11-19. Magdeburg situr í 4. sæti deildarinnar en Hüttenberg er í 18. og neðsta sætinu, einu stigi frá öruggu sæti.

Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar þegar Füchse Berlin sigraði Hannover með einu marki, 25-24, eftir spennandi lokamínútur.

Skömmu fyrir leikslok var Füchse Berlin sex mörkum yfir, 24-18. Hannover gerðu sér þá lítið fyrir og skoruðu næstu sex mörk og jöfnuðu leikinn, 24-24. Fabian Wiede reyndist þá hetja Berlínarliðsins þegar hann skoraði tryggði sigurinn undir lok leiksins.

Füchse Berlin er í 3. sæti deildarinnar með 49 stig, einu stigi frá Rhein Neckar Löwen sem á einn leik til góða í efsta sætinu. Hannover situr í 6. sæti deildarinnar.

Lübbecke hafði betur gegn Gummersbach, 22-21. Bæði liðin eru við fallsæti deildarinnar. Sigurinn var mikilvægur fyrir Lübbecke sem fer með honum í 15. sæti deildarinnar, einu stigi frá fallsæti. Gummersbach er með jafn mörg stig í 16. sætinu.

Melsungen sigraði Ludwigshafen með fjórum mörkum, 31-27. Staðan í hálfleik var 16-13 fyrir Melsungen. Melsungen fer með sigrinum í 7. sæti deildarinnar með 37 stig en Ludwigshafen er í 17. sætinu með 13 stig.

Úrslit kvöldsins:

Hüttenberg - Magdeburg  31-37

Füchse Berlin - Hannover  25-24

Gummersbach - Lübbecke  21-22

Ludwigshafen - Melsungen  27-31




Fleiri fréttir

Sjá meira


×