Körfubolti

Telur að Tryggvi verður valinn: Hann er gimsteinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson.
Friðrik Ingi Rúnarsson.
Íslendingar gætu eignast NBA-leikmann í nótt þegar nýliðaval deildarinnar fer fram í New York. Friðrik Ingi Rúnarsson, fyrrum landsliðsþjálfari, hefur fylgst vel með umræðunni vestanhafs í aðdraganda valsins og telur góðar líkur á því að Bárðdælingurinn verði valinn.

„Eftir því sem ég best veit og hef heyrt frá nokkrum aðilum sem eru bæði tengir liðum og frá stórum fjölmiðlum er talið nokkuð líklegt að hann verði valinn,“ sagði Friðrik Ingi en viðtalið við hann má heyra allt í spilaranum hér fyrir neðan.

Tryggvi Snær hefur heimsótt nokkur lið síðustu daga og vikur. Friðrik Ingi segir að þær heimsóknir hafi gengið vonum framar. „Þá komast menn að því hversu mikill gimsteinn þessi strákur er. Hann hefur heillað mjög marga,“ sagði hann.

Talið er líklegt að Tryggvi Snær muni snúa aftur til Spánar í sumar, hvort sem hann verði valinn eða ekki. Ef hann er valinn í nótt mun það lið eiga réttinn að Tryggva þegar hann svo fer loks til Bandaríkjanna.

En hvernig sem fer er ljóst að um stóra stund er að ræða fyrir íslenskan körfubolta. „Ekki bara körfubolta heldur íþróttalífið allt. Ekki síst á þessum tímum þegar við sjáum frábæra hluti gerast hjá bæði einstaklingsíþróttamönnum og landsliðum okkar í hópíþróttum. Þessir tímar sem við erum að lifa núna eru hreint út sagt stórkostlegir.“

Nýliðaval NBA-deildarinnar verður sýnt á NBA TV sem má finna í Sportpakka Stöðvar 2. Útsendingin hefst klukkan 23.00.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×