Mál 1: Kjararáð
Fyrir nokkru var frá því sagt að Kjararáð vill ekki afhendaFréttablaðinu fundargerðir sínar, en blaðið óskaði í nóvember 2017 eftir aðgangi að fundargerðunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur nú eftir langt þóf fellt úr gildi synjun ráðsins á beiðni blaðsins. Málið er brýnt þar eð bæði Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa sakað Kjararáð um að taka rangar ákvarðanir sem ógna vinnufriði og auka hættuna á kollsteypu á vinnumarkaði. Hvað gerði Alþingi? Það lagði Kjararáð niður með manni og mús. Enn er óvíst hvort hægt verður að fá úr því skorið sem fram fór á fundum Kjararáðs. Þetta gæti ekki gerzt í Svíþjóð og ekki heldur á Íslandi hefði Alþingi staðfest nýju stjórnarskrána 2013 eins og því bar.Mál 2: Seðlabankinn
Fundargerðir Seðlabanka Íslands eru ekki aðgengilegar almenningi og þá ekki heldur blaðamönnum. Það er bæði óheppilegt og óeðlilegt þar eð í lögum um Seðlabankann (28. gr.) segir: „Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda.“ Fulltrúum stjórnmálaflokkanna í bankaráðinu ber því lagaskylda til að fylgjast með því að starfsmenn bankans fari að lögum.Þar eð fundargerðum bankaráðsins er haldið leyndum getur fólkið í landinu ekki vitað hvort eða hvernig bankaráðsfulltrúar hafa rækt þessa lagaskyldu. Málið er brýnt m.a. vegna þess að vitað er um lögbrot í bankanum. Kastljós RÚV greindi frá því 2016 að hátt settur starfsmaður bankans hefði viðurkennt fyrir sérstökum saksóknara 2012 að hafa rofið trúnað 2008. Málið var talið hafa fyrnzt 2010 þar eð lög kveða á um fyrningu á tveim árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi. Maðurinn starfar enn í bankanum eins og ekkert hafi í skorizt.
Einnig er vitað um a.m.k. tvö meint lögbrot í bankanum sem Kastljós RÚV greindi einnig frá 2016, annars vegar gálaust lán Seðlabankans til Kaupþings 2008 og hins vegar birtingu Morgunblaðsins 2017 á útskrift af símtali seðlabankastjóra og forsætisráðherra þar sem ráðherrann segir um lánveitinguna: „Ég býst við því að við fáum þessa peninga [75 milljarða króna] ekki til baka“.
Seðlabankinn neitaði árum saman að upplýsa almenning og Alþingi um símtalið og bar við bankaleynd þótt hún komi málinu ekki við. Morgunblaðið birti útskriftina í nóvember 2017 án þess að vitað sé hvernig blaðið komst yfir svo vandlega varðveitt leyniskjal né heldur hvort viðeigandi yfirvöld hafi rannsakað gagnalekann. Málið er brýnt m.a. af því að hátt settur embættismaður fékk fangelsisdóm 2014 fyrir að stuðla að birtingu leynilegs gagns úr banka og einnig af því að Stundin hefur mátt una því mánuðum saman að mega ekki birta lekin bankagögn sem virðast eiga erindi við almenning. Sá gagnaleki var rannsakaður í þaula.
Það er sjálfstætt álitamál hvernig taka beri á bankaráðsfulltrúum ef ljóst þykir að þeir kunni að hafa vanrækt skýrar lagaskyldur sem á þeim hvíla.