Dominic Raab, nýr útgöngumálaráðherra Breta sem leiðir samninganefnd Bretlands í viðræðunum um útgöngu úr ESB, sagðist í Brussel í gær vilja kynda upp í viðræðunum. Þá sagðist hann einnig ætla að reyna að tryggja Bretum sem besta samningsstöðu.
„Ég hlakka til þess að fara yfir öll smáatriðin með meiri orku og ákefð,“ sagði í stuttri tilkynningu frá Raab áður en hann gekk inn á fund með formanni samninganefndar ESB, Michel Barnier.
Enn á eftir að loka erfiðum köflum í viðræðunum, til að mynda um landamæragæslu á milli Írlands og Norður-Írlands og um hvort Bretar fái enn aðild að innri markaðnum og tollabandalaginu. Þeim köflum þarf að loka fyrir útgöngudaginn, 29. mars næstkomandi.

