Hvasst verður víða á landinu í dag en búast má við vindi um 15,-18 m/s, og hviðum um 25 m/s, á sunnanverðu Snæfellsnesi, með Suðausturströndinni og á heiðum norðvestan- og vestanlands. Eru ökumenn bifreiða sem taka á sig mikinn vind því beðnir að sýna varkárni, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.
Þá er búist við dálítilli rigningu suðaustanlands og einnig þykknar upp og fer að rigna víða um norðvanvert landið með deginum. Annars staðar á landinu verður skýjað með köflum og víða bjartviðri suðvestantil. Hiti 7 til 13 stig en allt að 18 stig sunnanlands. Í nótt gengur í norðan 15-23 m/s um austanvert landið, hvassast á Suðausturlandi austan Öræfajökuls og á annesjum á Austfjörðum, með talsverðri eða mikilli rigninu á Austurlandi, á hálendinu norðan Vatnajökuls og á norðanverðum Austfjörðum. Á Suðausturlandi verður úrkomulítið.
Hægari vindur verður um landið vestanvert, 10-15 m/s, og dálítil rigning norðanlands og á Vestfjörðum en þurrt og bjart suðvestantil. Síðdegis á morgun dregur úr vindi á Austfjörðum en hvessir í 15-20 m/s á sunnanverðu hálendinu, vestan Öræfajöklus og undir Eyjafjöllum.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á þriðjudag:
Norðanátt, víða 8-15 m/s en 15-20 austast. Rigning á Norðurlandi og talsverð eða mikil rigning á Austurlandi, skýjað með köflum um landið suðvestanvert. Hiti 5 til 9 stig fyrir norðan, en 9 til 16 stig syðra.
Á miðvikudag:
Norðvestlæg átt, 3-10 m/s 10-13 m/s við NA-ströndina. Rigning norðaustantil og styttir upp með degium, en skýjað með köflum annars staðar. Hiti 4 til 7 stig á norðanverðu landinu, en annars 7 til 14 stig og hlýjast sunnanlands.
Á fimmtudag:
Norðvestlæg átt, 3-8 og skyjað með köflum en víða bjartviðri syðra. Hiti 6 til 9 stig norðaustantil, en 9 til 15 stig sunnan- og vestanlands.
Á föstudag og laugardag:
Hæg suðlæg átt og bjart með köflum. Hiti 8 til 15 stig, svalast við norður- og austurströndina.
Á sunnudag:
Fremur hæg suðvestlæg átt og víða skýjað vestantil á landinu en bjartviðri eystra. Hiti 10 til 18 stig að deginum, hlýjast á Austurlandi.
Ferðalangar varaðir við hvassviðri víða um land í dag
Kristín Ólafsdóttir skrifar
