Fótbolti

Búist við rúmlega sjö þúsund manns á Parken í kvöld

Anton Ingi Leifsson frá Strikinu skrifar
Leikvangur kvöldsins.
Leikvangur kvöldsins. vísir/getty
Búist er að rúmlega sjö þúsund manns verði á Parken í kvöld er Stjarnan mætir FCK í síðari leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Kenan Kodro og Viktor Fischer sáu til þess að FCK er með 2-0 forystu er liðið mætast í annað skiptið í kvöld. Staðan á Samsung-vellinum í hálfleik var markalaus en gestirnir stigu á bensíngjöfina í síðari hálfleik.

Flautað verður til leiks klukkan 18.00 að íslenskum tíma, 20.00 að staðartíma, en leikið verður á heimavelli FCK, Parken, sem er einnig þjóðarleikvangur Dana. Hann tekur 38 þúsund manns.

Völlurinn verður ekki fullur í kvöld, það er ljóst, en það gerist sjaldan að FCK nær að fylla völlinn. Aðallega er það þegar nágrannarnir í Bröndby mæta eða stórlið úr Evrópu mæta.

Í samtali við Vísi sagði Jes Mortensen, upplýsingafulltrúi FCK, að búist væri við á milli sjö og átta þúsund manns á leikinn í kvöld en um þúsund manns sáu fyrri leik liðanna á Samsung-velinum.

Leiknum í kvöld verður lýst í Boltavaktinni en hann hefst eins og áður segir klukkan 18.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×