Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir að það yrði „enginn heimsendir“ þó að Bretar gengju úr Evrópusambandinu án samnings um hvað tekur við á næsta ári. Mörg flokkssystkini hennar eru ósátt við skýrslu fjármálaráðherra ríkisstjórnarinnar um efnahagslegan kostnað Brexit.
Að óbreyttu ganga Bretar úr ESB í lok mars á næsta ári. Lítill árangur hefur hins vegar náðst í viðræðum þeirra og fulltrúa sambandsins um hvernig samskiptum þeirra verður háttað eftir útgönguna.
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, sagði í síðustu viku að Bretland gæti þurft að taka 80 milljarða punda að láni til viðbótar ef enginn samningur næst og það geti hamlað hagvexti til lengri tíma. Sú spá fór illa í harðlínumenn í Íhaldsflokki May.
The Guardian segir að May hafi reynt að fjarlægja sig skýrslu Hammond með því að gera lítið úr efnahagslegum áhrifum þess að ganga úr ESB án samnings. Bretland geti spjarað sig vel jafnvel þó að samningaviðræðurnar skili engu. Vísaði May til orða Roberto Azevedo, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, frá því í síðustu viku.
„Sjáið það sem framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur sagt. Hann sagði um það sem gerist ef enginn samningur næst að það verði enginn dans á rósum en að það yrði enginn heimsendir,“ sagði May.
Brexit án samnings „enginn heimsendir“

Tengdar fréttir

Könnun sýnir stuðning við aðra Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslu
Flestir svarendur í nýrri könnun vildi frekar vera áfram í ESB en að ganga úr sambandinu án samnings eða með samningi sem byggir á tillögu forsætisráðherrans.

Breska ríkisstjórnin birtir ráðleggingar fyrir Brexit án samnings
Brexit-ráðherrann segir að forgangsmál ríkisstjórnarinnar sé enn að ná samningi við Evrópusambandið um hvernig samskiptum þeirra verður háttað eftir útgönguna næsta vor.