Erlent

Þjóðverjar og Ítalir ná saman um móttöku flóttafólks

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari ræðir við innanríkisráðherrann og leiðtoga CSU, Horst Seehofer.
Angela Merkel Þýskalandskanslari ræðir við innanríkisráðherrann og leiðtoga CSU, Horst Seehofer. Vísir/Getty
Stjórnvöld í Þýskalandi hafa náð samkomulagi við Ítalíustjórn um að flóttamenn sem hafi áður sótt um hæli á Ítalíu verði sendir aftur þangað. Frá þessu greinir þýski innanríkisráðherrann Horst Seehofer, en gert er ráð fyrir að ritað verði undir samkomulagið á næstu dögum.

Þýska stjórnin náði samkomulagi við stjórnvöld í Grikklandi og Spáni í síðasta mánuði um að allir þeir flóttamenn sem komi til Þýskalands eftir að hafa áður sótt um hæli í Grikklandi eða Spáni verði sendir aftur til baka innan tveggja sólarhringa.

Samkomulag Þýskalandsstjórnar við stjórnvöld í Miðjarðarhafsríkjunum er afleiðing málamiðlunar þeirra flokka sem saman mynduðu ríkisstjórn í Þýskalandi eftir kosningar, það er Kristilegra demókrata (CDU) og systurflokks hans í Bæjaralandi (CSU) og Jafnaðarmannaflokksins (SDP). CSU hafa barist fyrir að þýsk stjórnvöld herði stefnu sína í innflytjendamálum.

Þýska stjórnin vonast til að mál allra hælisleitenda sem komi til Þýskalands og hafi áður sótt um hæli í öðru aðildarríki ESB, fái flýtimeðferð og verði sendir til baka innan tveggja sólarhringja. Þetta krefst þó tvíhliða samninga milli ríkjanna tveggja sem um ræðir í hverju tilviki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×