Fótbolti

Hamrén um Arnór: Hann verður góður en ungir leikmenn þurfa að spila

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór í baráttunni við einn besta varnarmann í heimi, Raphael Varane
Arnór í baráttunni við einn besta varnarmann í heimi, Raphael Varane vísir/getty
Arnór Sigurðsson hefur fengið mikla athygli á síðustu misserum og kom hann meðal annars inn sem varamaður fyrir CSKA Moskvu gegn Evrópumeisturum Real Madrid í Meistaradeild Evrópu um daginn.

Arnór var ekki valinn í landsliðshóp Íslands fyrir komandi leiki gegn Frökkum og Sviss, en Erik Hamrén sagði ástæðuna fyrir því vera að hann teldi Arnór fá meiri spilatíma með U21 landsliðinu.

„Við höfum rætt hann. Hann er einn af þeim leikmönnum í U21 landsliðinu sem við erum með mikinn áhuga á. Að mínu mati eru þrír, fjórir leikmenn þar sem við höfum mikinn áhuga á,“ sagði Hamrén á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag þar sem hann tilkynnti landsliðshópinn.

„Ég sá hann í Norrköpping áður en ég tók við landsliðinu og hann heillaði mig. Hann verður góður.“

„Ungir leikmenn þurfa að spila. Ég er ánægður með að þjálfarinn treystir honum og hann fær tækifærin, en ég tel að það sé betra fyrir hann að spila með U21 liðinu.“

Hamrén gaf svipað svar eftir að hann valdi síðasta hóp, en þá var leikmaðurinn Albert Guðmundsson en ekki Arnór. Albert er í hópnum í dag.

„Ég mun segja það sama við hann og ég sagði við Albert síðast. Spilaðu með U21 og vertu góður þar. Ungir leikmenn þurfa að spila.“

„Ég hef mikla trú á honum,“ sagði Erik Hamrén.


Tengdar fréttir

Enginn Jón Daði en Albert og Jón Dagur fá sæti í landsliðshópnum

Eric Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, valdi í dag hópinn sem að mætir heimsmeisturum Frakka í vináttuleik ytra 11. október og Sviss mánudaginn 15. október á Laugardalsvelli. Þetta verður þriðji leikur liðsins í Þjóðadeildinni en fyrstu tveir töpuðust illa gegn Sviss úti og Belgíu heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×