Nýverið hefur Neytendastofa bannað nokkrum fyrirtækjum og bloggurum að nota duldar auglýsingar. Fyrirtækin hafa ýmist afhent eða haft milligöngu um afhendingu á vöru til bloggara sem á móti hefur fjallað um vöruna. Í öllum málum þóttu færslur ekki skýrlega merktar sem auglýsingar. Lektor í lögfræði og formaður áfrýjunarnefndar neytendamála segir duldum auglýsingum hafa fjölgað mikið og að yfirvöld hér og í nágrannalöndum séu farin að horfa til þess.
„Ég held að þetta sé bara bolti sem er að rúlla og eftir því sem við verðum meira meðvituð um þetta og eftir því sem þessum tilvikum fer að fjölga, að þá held ég að neytendayfirvöld muni grípa í taumana. Við erum að sjá það núna og held að við munum sjá það áfram á næstu misserum,“ segir Halldóra Þorsteinsdóttir.
„Ég held að þetta sé bara bolti sem er að rúlla og eftir því sem við verðum meira meðvituð um þetta og eftir því sem þessum tilvikum fer að fjölga, að þá held ég að neytendayfirvöld muni grípa í taumana. Við erum að sjá það núna og held að við munum sjá það áfram á næstu misserum,“ segir Halldóra Þorsteinsdóttir.

„Reglurnar eru alveg skýrar og ég held að það sé alveg ljóst að fyrirtækin þekki þær. Þetta eru reglur sem hafa verið lengi í gildi um að þú eigir að auðkenna auglýsingar. En ég held að vandamálið sem menn standa kannski frammi fyrir núna er þetta ólíka eðli hinna ýmsu samfélagmiðla,“ segir Halldóra.
Hún segir nýlega úrskurði og dómaframkvæmd í nágrannalöndum gefa til kynna að málið verði tekið föstum tökum.
„Að það verði allavega enginn afsláttur veittur. Jafnvel þótt þetta séu samfélagsmiðlar, að þá sé tekið á þessu þannig að þetta þurfi að vera mjög skýrt. Það sé ekki nógu skýrt að segja til dæmis eftir langa bloggfrærslu: „Já, svo það sé tekið fram að þá er þetta samstarf.“ Neytanda þarf að vera ljóst frekar snemma að þetta sé auglýsing.“