Ágúst Arnar Ágústsson, sem verið hefur forstöðumaður trúfélagsins Zúism síðastliðin fjögur ár, hefur ákveðið að stíga til hliðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Zúistum. Margar spurningar hafa vaknað um Zuism frá stofnun félagsins en það hefur fengið tugi milljóna í formi sóknargjalda frá ríkissjóði. Þrátt fyrir það virðist félagið þó hvergi til húsa og heldur úti takmarkaðri starfsemi.
Í tilkynningu segir að Zuism muni auglýsa eftir nýjum forstöðumanni á næstunni. Það verði fyrsta verk nýrrar stjórnar Zúista sem kosin var á aðalfundi félagsins í september síðastliðnum. Nýja stjórnin verði jafnframt kynnt ásamt nýjum forstöðumanni þegar búið er að ráða í stöðuna. Fram að þessu hafa bróðir Ágústs Arnars og mágkona hans skipað stjórn Zuism.
Sýslumanninum á Norðurlandi eystra, sem hefur eftirlit með starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga, hefur ekki borst nein tilkynning um breytingar á stjórn Zuism. Félögum ber að tilkynna um slikar breytingar svo fljótt sem auðið er.
Sjá einnig: Kickstarter-bróðir fékk á aðra milljón úr Tækniþróunarsjóði
„Ég hef ákveðið að hætta sem forstöðumaður og um leið stjórnarformaður Zuism. Þessi ákvörðun hefur legið lengi í loftinu eftir að hafa gegnt starfinu í fjögur ár. Þessi ár hafa verið mjög krefjandi, meðal annars að stýra fyrstu endurgreiðslu sóknargjalda á Íslandi og koma upp athöfnum á vegum félagsins,“ er haft eftir Ágústi í tilkynningu.
„Mínar bestu minningar frá þessum tíma er einmitt þær giftingar sem ég hef framkvæmt. Ég vil þakka öllum sem hafa staðið á bakvið félagið og er ég sannfærður að bæði ný stjórn og forstöðumaður muni gæta hagsmuna félagsmeðlima og stefnu félagsins.“
Aldrei gefið kost á viðtali eða viljað svara spurningum
Margar spurningar hafa vaknað um trúfélagið Zuism frá stofnun þess, og þá hvort raunveruleg starfsemi búi að baki því. Í umfjöllun Vísis í vetur kom fram að starfsemi félagsins virðist takmörkuð í besta falli og að það sé húsnæðislaust.
Þrátt fyrir það hefur Zúism fengið tugi milljóna króna í formi sóknargjalda úr ríkissjóði. Forsvarsmenn félagsins, þ. á m. Ágúst Arnar, hafa jafnframt aldrei gefið kost á viðtali eða viljað svara spurningum um starfsemi þess eða fjármál.
Embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra hefur ekki viljað segja til um hvort það hafi málefni Zuism til athugunar, aðeins að embættið sé meðvitað um þau atriði sem Vísir hefur fjallað um.