Skoðun

Leikjafræði

Haukur Örn Birgisson skrifar
Nokkur verkalýðsfélög ætla nú í verkföll eftir að hafa slitið kjaraviðræðum. Fyrsta verkfallið var samþykkt með 89% greiddra atkvæða. Þrátt fyrir afgerandi niðurstöðu hafa Samtök atvinnulífsins höfðað dómsmál fyrir Félagsdómi til að fá skorið úr um lögmæti verkfallsins. Hvað sem líður lögfræðilegri niðurstöðu málsins, þá hlýtur fyrirkomulag kosninganna að teljast áhugavert.

Í kosningunum hjá Eflingu voru 7.950 félagsmenn með atkvæðisrétt. Þessir félagsmenn gegna alls konar störfum og reyndar er það svo að langflestir þeirra, eða 91%, starfa ekki við ræstingar á hótelum. Verkfallinu er hins vegar einungis ætlað að taka til þeirra 700 félagsmanna sem starfa við slíkar ræstingar.

Efling ákvað að nýta sér ekki heimild í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, sem heimilar eingöngu þeim sem verkfallið tekur til, að kjósa um það hvort farið skuli í verkfall. Í þessum kosningum fengu allir að kjósa um það hvort lítill hluti félagsmanna færi í verkfall. Í verkfallskosningunni tóku þátt 862 félagsmenn og af þeim voru 769 sem greiddu atkvæði með verkfalli ræstingarfólksins. Það þýðir að 9,7% félagsmanna fá að senda heila starfsstétt í verkfall.

Til að bæta gráu ofan á svart, þar sem kosningin var leynileg, er útilokað að vita hvort nokkur einasta manneskja sem starfar við ræstingar hafi kosið með því að fara í verkfall. Það gæti meira að segja verið svo að öll hafi þau kosið gegn verkfalli! En í krafti „meirihlutakosningar“ verður fámennur hópur sendur út á vígvöllinn, í von um að vinnustöðvun hans dugi til þess að knýja fram kjarabætur fyrir alla hina, sem koma ekki nálægt ræstingum á sínum vinnustað.






Skoðun

Sjá meira


×