Innlent

"Kjörið tækifæri til að svipast um eftir norðurljósum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það má búast við norðurljósum í kvöld og nótt um landið suðvestanvert en myndin er tekin á Snæfellsnesi.
Það má búast við norðurljósum í kvöld og nótt um landið suðvestanvert en myndin er tekin á Snæfellsnesi. vísir/getty
Norðvestlæg átt verður ríkjandi á landinu í dag með stífum vindi í fyrstu en það mun svo lægja smám saman þegar líður á daginn. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Það munu áfram vera él norðan- og austan til á landinu en léttir til sunnan- og vestan lands. Þá verður hiti um frostmark víðast hvar um landið en mildast verður sunnan til þar sem sólin nær að verma grund. Svo eru það norðurljósin í kvöld og nótt:

„Hægur vindur í nótt og skýjað með köflum, en léttskýjað um landið suðvestanvert og kólnar talsvert einkum inn til landsins. Kjörið tækifæri til að svipast um eftir norðurljósum þar sem búast má við dálítilli virkni,“ segir í hugleiðingunum.

Það verður svo hæglætisveður á morgun og má búast við einhverri sól, einkum suðvestan til á landinu. Þó má búast við éljum yfir daginn en fram eftir vikunni verður svo áfram fremur rólegt vetrarveður.

Veðurhorfur á landinu:

Minnkandi norðaustanátt, 8-15 eftir hádegi og dálítil él, en léttir til sunnan- og vestanlands. Hægari í kvöld. Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt í nótt og á morgun, skýjað með köflum og sums staðar dálítil él. Hiti um og undir frostmarki yfir daginn, en 0 til 5 stig sunnantil. Frost 2 til 12 stig í nótt, kaldast til landsins.

Á þriðjudag:

Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og él á stöku stað. Frost 1 til 8 stig og kaldast í innsveitum, en frostlaust syðst.

Á miðvikudag:

Norðaustlæg átt, 3-8 m/s og snjókoma eða él, en víða þurrt og bjart suðvestantil. Kólnar lítið eitt.

Á fimmtudag:

Norðaustan 3-8 og þurrt og bjart að mestu, en austan 8-13 við SA-ströndina og snjókoma. Svalt í veðri.

Á föstudag:

Vaxandi suðaustlæg átt, strekkingur sunnantil síðdegis og dálítil él en annars hægari og víða bjart. Hiti um frostmark S- og V-lands, en frost 0 til 8 stig NA-til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×