Ísland hóf í gær sinn undirbúning fyrir fyrsta leik sinn í undankeppni EM 2020 en strákarnir okkar mæta Andorra á föstudag. Eftir það bíður erfiður leikur gegn heimsmeisturum Frakklands í París á mánudagskvöld.
„Það er gaman að fá keppnisleik aftur. Það hafa verið nokkrir mánuðir síðan,“ sagði Birkir við Vísi eftir æfingu íslenska landsliðsins í Peralada á Spáni í gær. Birkir leikur með Val í Pepsi Max-deildinni og hefur því ekki spilað marga keppnisleiki í vetur.
„Það er líka gaman að byrja nýja keppni. Við sjáum EM í hyllingum,“ bætti hann við.

Munum sýna aftur rétt hugarfar
Birkir segir að leikir Íslands í Þjóðadeildinni í haust hafi verið erfiðir. Ekki aðeins hafi andstæðingar Íslands verið sterkir.„Það voru mikið af meiðslum en nú erum við komnir allir saman. Það er mikill vilji og hungur í að fara á annað stórmót,“ sagði bakvörðurinn öflugi.
Hann segir að það sem hafi einkennt lið Íslands síðustu ár, samheldni og barátta, sé enn til staðar. Hugarfarið sé enn gott.
„Þó svo að það hafi ekki endilega sést í síðustu leikjum þá munum við sýna það í þeim leikjum sem við eigum fram undan,“ sagði hann.

Hausinn í lagi
Birkir segir að það sé erfitt að spila gegn liði eins og landsliði Andorra. Hann þekkir það vel eftir að Valur mætti Santa Coloma, besta félagsliði Andorra, í Evrópuleik síðastliðið sumar.„Ég býst við svipuðu dæmi. Þeir munu liggja til baka, taka sér langan tíma í allt og reyna að komast í hausinn hjá okkur. Við þurfum að vera einbeittir og hugsa um okkur sjálfa. Við þurfum að vera með hausinn rétt skrúfaðan á.“
Erik Hamren tók við þjálfun íslenska landsliðsins eftir að Heimir Hallgrímsson hætti með það síðastliðið sumar. Birkir segir að hann hafi nú fengið nægan tíma til að koma sínu áleiðis til leikmanna.
„Við höfum fengið þokkalegan tíma með honum og hann er búinn að koma sínu til skila. Nú er að fara með það inn á völlinn og gera það sem okkur er sagt.“