Innlent

Mjög blint og mikið kóf í versnandi veðri norð­vestan lands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vindaspá Veðurstofu Íslands klukkan 18 í dag er ekki beint árennileg fyrir Vestfirði og Norðvesturland.
Vindaspá Veðurstofu Íslands klukkan 18 í dag er ekki beint árennileg fyrir Vestfirði og Norðvesturland. veðurstofa íslands
Vegagerðin hefur sent frá sér tilkynningu vegna versnandi veðurs um landið norðvestanvert síðdegis í dag.

Vindröst með suðvestan stormi gengur þá á land og er spá 20 til 25 metrum á sekúndu á fjallvegum Vestfjarða og á Þverárfjalli en 17 til 20 á Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði.

Búast má því að það verði mjög blint og mikið kóf og það setjist fljótt í skafla. Það lægir svo seint í nótt.

Færð á vegum er annars þessi:

Yfirlit: Vetrarfærð og éljagangur víðast hvar á vestan- og norðanverðu landinu og frekar hvasst. Austan- og norðaustanlands er víða greiðfært.

Höfuðborgarsvæðið: Greiðfært er á öllum leiðum.

Suðvesturland: Hálka eða hálkublettir ásamt éljagangi víðast hvar á fjallvegum en greiðfært er orðið nokkuð víða á láglendi.

Vesturland: Víða hálkublettir eða hálka og éljagangur. Snjóþekja á Holtavörðuheiði, Heydal og Laxárdalsheiði. Mælt er frekar með Laxárdalsheiði og Bröttubrekku heldur en Holtavörðuheiði vegna skyggnis.

Vestfirðir: Snjóþekja eða hálka víðast hvar og víða éljagangur eða skafrenningur. Þungfært og skafrenningur er norður í Árneshrepp.

Norðurland: Hálka víða í Húnavatnssýslum en hálkublettir og éljagangur í Skagafirði og í Eyjafirði.

Vaðlaheiðargöng: Vegna vinnu í Vaðlaheiðargöngum er næturlokun fyrir almenna umferð þessa viku, milli kl. 22 og 06 fram á fimmtudag 21. mars.

Norðausturland: Vegir eru víðast hvar greiðfærir en hálkublettir eru á Fljótsheiði sem og á Möðrudalsöræfum vestan Vopnafjarðarafleggjara.

Austurland: Hálka er á Vatnsskarði eystra en annars eru vegir mikið til auðir.

Suðausturland: Hálkublettir eru frá Eldhrauni og austur í Öræfasveit en greiðfært er frá Kvískerjum að Höfn. Snjóþekja og snjókoma er á Mýrdalssandi.

Suðurland: Hálka eða hálkublettir eru víða í uppsveitum en hálkublettir víða á þjóðvegi 1. Hálka er á Reynisfjalli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×