Innlent

Segir lítið að gerast í kjaradeilu iðnaðarmanna og SA

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kristján Þórður Snæbjarnarson er formaður RSÍ.
Kristján Þórður Snæbjarnarson er formaður RSÍ. vísir/vilhelm
Samningafundur var í kjaradeilu iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins fyrir hádegi í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og talsmaður iðnaðarmanna, segir í samtali við Vísi að frekar lítið sé að gerast í viðræðunum þessa dagana.

„Staðan er svo sem frekar þröng. Það er frekar lítið sem er að gerast þessa dagana. Það er það eina sem ég get sagt um það. Það var verið að funda í dag og verður fundað aftur á miðvikudagsmorguninn. Hlutirnir eru að vinnast mjög hægt,“ segir Kristján.

Hann segir markmiðið að klára samninga sem fyrst.

„Maður hefur mánaðamótin sem ákveðinn tímapunkt til að reyna að vera búinn að þessu. Síðan er bara spurning hvort að það gangi. Maður er svona misbjartsýnn eftir hvern dag, suma daga er maður mjög jákvæður og suma daga ekki,“ segir Kristján.

Iðnaðarmenn og SA funda næst á miðvikudaginn hjá ríkissáttasemjara.


Tengdar fréttir

„Menn eru frekar hugsi, svo ég orði það bara pent“

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og talsmaður þeirra iðnaðarfélaga sem eru í samfloti í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, segir verulega skiptar skoðanir á meðal iðnaðarmanna um kjarasamningana sem undirritaðir voru í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×