Gerðarbeiðandi er eigandi vélarinnar, bandaríska flugvélaleigufyrirtækið Air Lease Corporatio (ALC). Morgunblaðið greindi fyrst frá aðfarabeiðninni.
Fréttastofa hefur aðfarabeiðnina undir höndum en þar kemur fram að Isavia skorti lagaheimild til að halda flugvélinni. Heimild sem Isavia byggir á er í 136. gr loftferðalaga en þar segir að heimilt sé að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld hafa verið greidd.
„Við teljum að sú lagaheimild geti ekki átt við þegar eigandi loftfarsins er ekki sá sem stofnaði til skuldarinnar," segir Oddur Ástráðsson, lögmaður Air Lease Corporation.

„Byggt var á þeirri heimild, sem grundvölluð er í loftferðalögum, þegar vélin var kyrrsett. Dómafordæmi frá 2014 í máli Holiday Czech Airlines liggur fyrir. Að öðru leiti telur Isavia að hagsmunum félagsins sé best borgið með að reka málið fyrir dómstólum en ekki í fjölmiðlum.“
Vandséð hvernig Isavia hafi haft umboð til að veita fyrirgreiðslur
WOW air skuldaði Isavia um níu mánuði í lendingargjöld en vanskil hófust þann 30. júní í fyrra. Í aðfarabeiðninni segir að Isavia hafi ekki haft heimildir samkvæmt eigin reglum til þess að veita WOW air lánafyrirgreiðslu með þessum hætti.„Og vandséð hvernig þeir hafi haft umboð til að veita fyrirgreiðslur í allan þennan tíma. Og okkur virðist sem það hafi verið gert í trausti þess að hægt væri hægt að leita fullnustu í eigum óviðkomandi þriðja aðila ef allt færi á versta veg, sem við teljum auðvitað að standist ekki nokkra skoðun," segir Oddur.
Hann vísar í opinbera skilmála Isavia um það hvernig eigi að standa að greiðslu gjalda. Meginreglan sé sú að það eigi að staðgreiða gjöldin með undantekningarheimild um reikniviðskipti.
„En ekkert í reglum Isavia sjálfs leyfir að þau láti þessi gjöld safnast upp til lengri tíma gegn því að það sé trygging í eigu leigusalans.“
Náðu að klóra í bakkann en eftir standa tveir milljarðar
Oddur segir að frá sumri 2018 og þar til WOW air varð gjaldþrota hafi fallið til lendingargjöld sem námu um þremur milljörðum. Við gjaldþrotið í mars hafi skuldin verið tæpir tveir milljarðar.„Þeir hafa náð að klóra eitthvað í bakkann og borgað þriðjung þess sem stóð eftir en restin stóð eftir með vitund og samþykki og vilja Isavia.“
Þá segir í aðfararbeiðninni að framganga Isavia kunni að leiða til þess að flugvélaleigusalar muni forðast að beina þeim um flugvöllinn í Keflavík.
„Þá auðvitað vekur þetta mjög aðkallandi spurningar um það hvort það sé yfir höfuð skynsamlegt að leigja flugvélar til Íslands þegar flugmálayfirvöld fara ekki eftir sínum eigin reglum"
Það sé mest aðkallandi núna að félagið fái vélina sína aftur. Búið er að boða fyrirtöku í málinu næstkomandi þriðjudag.
„Það liggur fyrir að ef þetta ástand varir þá kemur það til með að baka tjón sem við teljum að Isavia beri fulla ábyrgð á.“