Erlent

Ástralska ríkisstjórnin heldur óvænt velli

Andri Eysteinsson skrifar
Morrison fagnaði ásamt fjölskyldu og vinum.
Morrison fagnaði ásamt fjölskyldu og vinum. Getty/Bloomberg
Ríkisstjórn Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur haldið þingmeirihluta sínum eftir þingkosningar sem fram fóru í Ástralíu í gær. CNN greinir frá.

Sigri Frjálslynda bandalags Scott Morrison hefur verið lýst sem kraftaverki úr því sem komið var en Verkamannaflokkur Ástralíu leiddi allar skoðanakannanir fram að kosningum. Degi fyrir kosningarnar var munurinn þó orðinn lítill en Verkamannaflokkurinn mældist með 51% gegn 49% Frjálslyndra.

„Ég hef alltaf haft trú á kraftaverk, og í kvöld höfum við framkvæmt kraftaverk sagði Morrison við sigurreifa stuðningsmenn sína í dag. Morrison þakkaði einnig hinum þöglu landsmönnum stuðninginn.

Andstæðingur hans, Bill Shorten, sem búist var við að yrði næsti forsætisráðherra reyndi að stappa stálinu í vonsvikna stuðningsmenn sína. „Ég er stoltur af okkar málstað, við börðumst fyrir því sem er rétt að gera en ekki því sem er auðvelt að gera“

Shorten tilkynnti þá stuttu seinna að hann hygðist ekki sækjast eftir leiðtogaembættinu að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×